Viðskipti erlent

Mikill sam­dráttur á pöntunum til kín­verskra verk­smiðja

Samúel Karl Ólason skrifar
Gámar við höfnina í Guangzhou í Kína.
Gámar við höfnina í Guangzhou í Kína. AP/Ng Han Guan

Pöntunum til kínverskra verksmiðja hefur fækkað verulega vegna hárra tolla Donalds Trumps á vörur frá Kína. Pantanirnar í apríl hafa ekki verið færri frá árinu 2022, þegar Covid gekk yfir, og framleiðsla hefur heilt yfir ekki verið minni í Kína í rúmt ár.

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Kína sem fjölmiðlar eins og Wall Street Journal hafa vísað í. Eins og frægt er hefur forseti Bandaríkjanna sett 145 prósenta toll á vörur frá Kína, auk tolla á vörur frá fleiri ríkjum og almennan tíu prósenta toll á allar vörur sem fluttar eru til Bandaríkjanna.

Trump hefur einni sett tolla á stál, ál og bíla og hefur heitið því að setja einni tolla á hálfleiðara og lyf.

Trump hefur sakað önnur ríki um að koma illa fram við Bandaríkin og vera ósanngjörn. Hann hefur talað um að vilja nota tolla til að þvinga fyrirtæki til að auka framleiðslu í Bandaríkjunum og draga úr viðskiptahalla við önnur ríki.

Hann boðaði snemma í apríl umfangsmikla tolla á ríki sem Bandaríkin eiga viðskiptahalla við en frestaði þeim svo um níutíu daga.

Kínverjar selja mikið af vörum til Bandaríkjanna og benda þessar nýjustu tölur til þess að bandarískir innflytjendur hafi hætt að panta vörur frá Kína eða frestað kaupum sínum. Í aðdraganda tollanna höfðu bandarískir innflytjendur lagt mikið kapp á að koma sem mestum vörum til Bandaríkjanna.

Ráðamenn í Kína hafa brugðist við tollum Trumps með eigin tollum á vörur frá Bandaríkjunum og aðgerðum gegn bandarískum fyrirtækjum í Kína. Þeir hafa einnig takmarkað aðgengi Bandaríkjamanna að svokölluðum sjaldgæfum málmum, sem eru gífurlega mikilvægir við framleiðslu tæknivara og hergagna en Kínverjar eru nánast einráðir á þeim markaði.

Fregnir hafa borist af því að Trump ætli sér að lækka tolla á Kína en það hefur ekki gerst enn. Trump hefur haldið því fram að viðræður eigi sér stað milli kínverskra og bandarískra erindreka en því neita ráðamenn í Kína. Þeir segja engar slíkar viðræður eiga sér stað, enn sem komið er.

Sjá einnig: Gefur eftir í tollastríði við Kína

Ráðamenn í Kína hafa heitið aðgerðum til að létta undir með hagkerfinu, bæta aðgengi fyrirtækja að opinberum lánum. Þá stendur einnig til að reyna að auka innlenda eftirspurn og neyslu en hagfræðingar hafa þó strax breytt spám sínum um hagvöxt í Kína og búast við minni slíkum á þessu ári.

Í frétt Reuters segir að hagfræðingar búist nú við um 3,5 prósenta hagvexti, í stað fimm prósenta, eins og búið var að spá.

Samdráttur hefur einnig orðið í skipaflutningum til bandarískra hafna. Hagfræðingar hafa varað við því að tollar Trumps um viðskiptaátök Bandaríkjamanna við önnur ríki muni koma niður á hagkerfum víða um heim, draga úr vexti og auka hættuna á kreppu.


Tengdar fréttir

Fagnaði fyrstu hundrað dögunum í Hvíta húsinu

Donald Trump Bandaríkjaforseti fagnaði því í gærkvöldi að hann hefur nú verið hundrað daga við völd í Hvíta húsinu. Trump kom fram á fjöldasamkomu í Michigan-ríki þar sem hann og stuðningsmenn hans fóru yfir þau mál sem hann hefur komið í verk á síðustu mánuðum.

Kemur til móts við bílaframleiðendur vegna tolla

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar að koma til móts við bílaframleiðendur þar í landi og reyna að milda áhrif tolla hans á starfsemi þeirra. Þannig vill hann gefa þeim meiri tíma til að flytja framleiðslu aftur til Bandaríkjanna en Trump ætlar þó að halda háum tollum á innflutta bíla og bílaíhluti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×