Handbolti

Tuttuguogsjö marka stór­sigur í fyrsta leik á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Reynir Þór Stefánsson var markahæstur í íslenska liðinu gegn Úkraínu.
Reynir Þór Stefánsson var markahæstur í íslenska liðinu gegn Úkraínu. vísir/diego

Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum tuttugu ára og yngri fer vel af stað á EM í Slóveníu. Í dag vann Ísland risasigur á Úkraínu, 49-22.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna voru yfirburðir Íslendinga í leiknum í dag gríðarlega miklir. Ísland komst í 7-1 og eftir átján mínútur var munurinn kominn upp í tíu mörk, 18-8. Í hálfleik munaði svo fimmtán mörkum á liðunum, 28-13.

Eina spennan í seinni hálfleik var hversu stór sigurinn yrði. Og á endanum varð hann 27 marka, 49-22.

Reynir Þór Stefánsson var markahæstur í íslenska liðinu með níu mörk. Eiður Rafn Valsson, Atli Steinn Arnarson og Össur Haraldsson skoruðu fimm mörk hver. Þrettán af fjórtán útileikmönnum Íslands komust á blað í leiknum.

Ísak Steinsson og Breki Hrafn Árnason vörðu báðir átta skot í íslenska markinu.

Næsti leikur Íslands er gegn Póllandi á morgun. Á laugardaginn mætast svo Íslendingar og Svíar í lokaumferð riðlakeppninnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×