Körfubolti

Ein­beitir sér að því að komast í NBA frekar en að spila með pabba sínum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bronny James vill skapa sitt eigið nafn.
Bronny James vill skapa sitt eigið nafn. Alex Bierens de Haan/Getty Images

Bronny James, sonur körfuboltagoðsagnarinnar LeBron James, segist aldrei hafa leitt hugann að því að spila í sama liði og pabbi sinn. Hann einbeiti sér frekar að því að komast í NBA-deildina.

Hinn 19 ára gamli Bronny James vonast til að feta í fótspor föður síns og komast að í nýliðavali NBA-deildarinnar sem hefst þann 26. júní næstkomandi.

Pabbi hans, LeBron James, verður fertugur á árinu og er á leið inn í sitt 22. tímabil í NBA-deildinni þar sem hann leikur með Los Angeles Lakers, en hann hefur áður sagt að hann vilji spila með syni sínum áður en skórnir fara á hilluna.

Sonur hans er þó ekki endilega að hugsa um það að komast í sama lið og pabbi sinn.

„Það myndi gleðja mig mun meira að komast að í deildinni en tilhugsunin að spila með pabba mínum. Það er ekki hugarfarið sem ég er með núna,“ sagði Bronny James.

„Draumurinn hefur alltaf verið að koma mínu nafni að, að skapa mitt eigið nafn og að sjálfsögðu að komast í NBA. Ég hef aldrei hugsað um það að spila með pabba mínum. En hann hefur auðvitað sjálfur nefnt það nokkrum sinnum.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×