Körfubolti

Mitchell skaut Cle­veland í undan­úr­slit Austursins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mitchell var frábær í liði Cleveland í kvöld.
Mitchell var frábær í liði Cleveland í kvöld. Jason Miller/Getty Images

Cleveland Cavaliers hafði betur í oddaleik gegn Orlando Magic í einvígi liðanna í 8-liða úrslitum Austurhluta NBA-deildarinnar í körfubolta. Donovan Mitchell skoraði 39 stig fyrir Cleveland í leik sem endaði 106-94.

Cavaliers og Magic enduðu í 4. og 5. sæti Austursins. Það var búist við spennandi og jafnframt skemmtilegri rimmu en það hefur komið á óvart hversu lítið var skorað í leikjunum sjö. 

Aðeins í einum þeirra skoruðu bæði lið yfir 100 stig. Spurning hvort það megi skrá það sem reynsluleysi en lið Magic til að mynda mjög ungt.

Það sást ef til vill hvað best í kvöld þegar liðið fraus einfaldlega í síðari hálfleik eftir að leiða með tíu stigum í hálfleik, staðan þá 53-43 Orlando í vil. Það voru engir töfrar í liði Magic í 3. leikhluta þar sem liðið skoraði aðeins 15 stig gegn 33 hjá Cavaliers sem vann á endanum tólf stiga sigur, lokatölur 106-94.

Mitchell skoraði 39 stig, tók 9 fráköst og gaf 5 fráköst. Caris LaVert skoraði 15 stig og Max Strus 13 stig. Í liði Magic skoraði Paolo Banchero 38 stig ásamt því að taka 16 fráköst og gefa 2 stoðsendingar. Wendell Carter Jr. kom þar á eftir með 13 stig og 7 fráköst.

Cavaliers er komið í undanúrslit Austursins og mætir þar Boston Celtics. Það eru svo New York Knicks og Indiana Pacers sem mætast í hinni undanúrslitarimmunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×