Skoðun

Það verður ekki bæði sleppt og haldið

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir skrifar

Lít yfir kaffistofuna.

Fjórir bollar hafa dottið úr vinnu til lengri eða skemmri tíma vegna bugunar (hálft til tvö ár).

Tveir eru á ,,góðri’’ leið með að skella á gólfið.

Nokkrir að auki hafa verið frá vinnu vegna líkamlegra áverka og í kjölfarið sjúkrahúslegu, vegna nemenda.

Nokkrir hafa náð að halda sjó með því að hætta með umsjón.

Flest eru þetta kennarar.

Næstum öll konur.

Þau sem dottið hafa út af vinnumarkaði en eru mætt aftur, græða munn fyrir neðan nefið.

Fara að setja kröfur og mörk.

,,Ertu ekkert hrædd um að stjórnendur álíti að þú ráðir ekki við starfið ef þú segist þurfa aukinn stuðning inn í bekkinn?’’ sagði ég við eina ljónynju.

,,Það ræður enginn við þetta starf. Þannig að, nei! Ég er ekkert hrædd við það.’’

En hvers vegna er ég í þessu starfi? Ástæðan er sú að milli þess sem ég er að bugast þá er einstaklega gefandi að vinna að því að byggja upp, styðja og styrkja börn.

En dugar það til? Það er stóra spurningin sem margir kennarar velta fyrir sér.

Það hjálpar ekki þegar upp koma mál sem minnka getu þeirra sem starfa í skólum til að takast á við aðstæður.

Nægir þar að nefna nýlegan dóm um ,,röng viðbrögð’’ iðjuþjálfa, þegar hún hélt nemanda eftir að hann lamdi hana og sparkaði í hana.

Slíkir dómar auka á það ráðaleysi sem oft ríkir í grunnskólum vegna agamála.

Þess vegna þurfa kennarar fullan stuðning og viðveru annars fullorðins fagaðila inn í bekki.

Það verður nefnilega ekki bæði sleppt og haldið.

Höfundur er grunnskólakennari.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Jón Þór Stefánsson skrifar

Sjá meira


×