Skoðun

Aug­lýst er eftir endur­reisn fram­halds­skólans

Guðjón Hreinn Hauksson skrifar

Hann var ansi góður þátturinn um málefni framhaldsskólans á Torginu á Rúv í gærkvöldi. Formaður Félags framhaldsskólakennara er vissulega eyðilagður yfir að hafa ekki getað mætt til leiks en formaður Kennarasambandsins leysti verkefnið afskaplega vel fyrir hönd framhaldsskólans. Hafi hann mikla þökk fyrir. Sama er að segja um þá kennara sem komu víða að til þess að koma mjög mikilvægum sjónarmiðum að í umræðunni.

Fjölmörg álitamál og nauðsynleg úrlausnarefni komu við sögu sem nauðsynlegt er að taka mun dýpri umræðu um í framhaldinu. Þær Aníta Sóley Scheving Þórðardóttir, fyrrverandi varaforseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema, og Helga Vigdís Thordersen, nemandi við Verzlunarskóla Íslands, vörpuðu mikilvægu ljósi á hvernig stytting námstíma til stúdentsprófs hefur aukið vinnuálag á nemendur með tilheyrandi áhrifum á líðan nemenda og möguleika til nauðsynlegs félagslífs og tómstundaiðkunar.

Það sem ég vil þó nefna sérstaklega í þessum pistli hér er augnablik í þættinum þegar umræðan barst að fjármögnun framhaldsskólastigsins. Formaður KÍ benti réttilega á það að aukið fjármagn til framhaldsskólastigsins, sem lofað var við breytinguna úr fjögurra ára námstíma til stúdentsprófs í þrjú, hefur aldrei skilað sér. Menntamálaráðherra fékk þar óáreittur að svara þessu þannig til að ekki hafi verið „króna tekin út úr framhaldsskólakerfinu þegar ráðist var í þessa aðgerð.“ Ráðherra rekur síðan þá sögu að þegar hann var að byrja í pólitík hafi nánast allir framhaldsskólar landsins verið reknir með miklum halla og segir svo: „Það fjármagn var ekki tekið út úr kerfinu þegar styttingin varð. Það fjármagn var skilið eftir inni í kerfinu.“

Fyrir aðsenda grein Guðjóns Hreins Haukssonar.Aðsend

Þarna komst ráðherra nokkuð listilega frá því að svara fyrir það skýra loforð sem þjóðinni var gefið þegar lagt var af stað við samþjöppun náms til stúdentsprófs. Í greininni „Endurreisn framhaldsskólans“ sem þáverandi menntamálaráðherra skrifaði í Morgunblaðið í október 2016 segir hann þetta: "„Á árunum fyrir hrun hafði aðhaldskröfu verið beint að skólunum en í kjölfar hrunsins var gengið mjög hart gagnvart framhaldsskólunum og þeir skornir mjög grimmt niður. […] Nú liggur fyrir sú ákvörðun að það sem sparast við styttinguna mun ekki renna út úr framhaldsskólakerfinu, þess í stað verður það nýtt til að hækka framlög á hvern nemanda."

Hér virðist vera samhljómur milli ráðherranna tveggja. Þeir eru sammála um erfiða stöðu skólanna fyrir hrun og að fjármagnið átti að halda sér.

Skoðum raunveruleikann. Skoðum mynd:

Heimild: Hagstofa Íslands.Aðsend

Bláa línan sýnir þróun hlutfalls heildarútgjalda til fræðslumála af vergri landsframleiðslu (ásinn hægra megin) en rauða línan þróun sama hlutfalls til framhaldsskólastigsins (vinstri ás). Sjá má að heildarútgjöldin hækkuðu töluvert um aldamótin (eftir hörð verkföll kennara) en síðan má sjá að frá ca. 2012 hafa heildarútgjöldin haldist nokkurn veginn í um sjö prósentum af vergri landsframleiðslu. Rauð lína framhaldsskólastigsins sýnir vel hina hörðu aðhaldskröfu til framhaldsskólans fyrir hrun en samkvæmt orðum ráðherranna beggja hefði þessi rauða lína í versta falli ekki átt að hrapa meira eftir árið 2014.

Tölur Hagstofunnar segja þó allt aðra sögu. Frá árinu 2014 hefur hlutfall útgjalda til framhaldsskólastigsins af vergri landsframleiðslu lækkað um 13% og ef við lítum til aðhaldsáranna 2005-2008 er talan 24% – Hvernig er hægt að halda því fram að fjármagnið hafi haldið sér?!

En það var þó ekki aðeins svo að fjármagnið skyldi halda sér. Í loforði ráðherra árið 2016 um „endurreisn framhaldsskólans“ fólst einnig að fjármagnið yrði aukið, bæði í krónum talið og þannig einnig framlag per nemanda. Þannig var því lofað að á verðlagi 2016 skyldi framlag per ársnemanda hækkað úr 900 þús. kr. í 1.570 þús. kr. árið 2021, það er hækkun um 57% – Ja, hefði orðið.

Skoðum aftur raunveruleikann. Skoðum mynd.

Heimild: Hagstofa Íslands. Athuga ber að hér er miðað við verðlag 2022.Aðsend

Mynd 2 sýnir útgjöld til mismunandi skólastiga reiknuð per nemanda. Við sjáum á verðlagi 2022 að framlag til ársnema árið 2013 er metið 1.456 þúsund (en var 900 þús. á verðlagi 2016). Um þessa stöðu sagði menntamálaráðherrann árið 2016: „Þessi skelfilega lága tala sem blasti við sumarið 2013 stefndi öllu skólastarfi í voða“. Því hafi ríkisstjórnin tekið ákvörðun um aukin framlög til framhaldsskólans og boðuð er 57% hækkun til ársins 2021. Ekki nóg með það, því „svigrúm er til enn frekari hækkana ef vilji er til slíks“. Á myndinni má sjá að vissulega hefur tekist að hækka framlag per nemanda frá því skelfilega ári 2013, alls um heil 11%, en ljóst má vera að loforðið hefur engan veginn staðist. Ef loforðið hefði verið uppfyllt stæði þessi tala í u.þ.b. 2.300 árið 2022 en það er nokkurn veginn sú tala og sveitarfélögunum hefur tekist að galdra fram per ársnemanda á barnaskólastigi.

Að ráðherra gefi það í skyn frammi fyrir alþjóð að staðið hafi verið við fjárhagsleg loforð við styttingu og samþjöppun náms til stúdentsprófs er grafalvarlegt.

Ég auglýsi því enn og aftur eftir endurreisn framhaldsskólans!

Höfundur er formaður Félags framhaldsskólakennara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×