Handbolti

Hafn­firðingar hefja at­lögu að titlinum með sigri

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Deildarmeistarar FH unnu fyrsta leik gegn KA.
Deildarmeistarar FH unnu fyrsta leik gegn KA. vísir / hulda margrét

Deildarmeistarar FH unnu 30-28 gegn KA í fyrsta leik í úrslitakeppni Olís deildarinnar. 

Jafnræði ríkti lengst af, liðin skiptust á að taka forystuna þar til í stöðunni 10-10 á 18. mínútu. Þá náði FH upp þriggja marka forystu, 13-10, sem gestirnir eltu. 

Þeim tókst að jafna rétt fyrir hálfleikslok en gott skot frá Jóhannesi Berg sá til þess að FH fór með 15-14 forystu inn í hálfleikinn. 

Fljótlega í seinni hálfleik náði FH upp fjögurra marka forystu og aftur þurftu gestirnir að elta. Þeir klukkuðu FH einu sinni á 45. mínútu, 22-22, en komust ekki aftur nálægt þeim eftir það. FH var fljótt að ná forystunni aftur og hélt henni til enda, 30-28 að lokum. 

Daníel Freyr Andrésson varði vel í marki FH, 12 skot af 40. Aron Pálmarsson var markahæstur í liði FH með 9 mörk úr 14 skotum, hann gaf að auki 8 stoðsendingar. 

Hjá KA fór Einar Rafn Eiðsson fremstur í flokki með 8 mörk úr 11 skotum. 

Átta liða úrslitin hófust í gær með tveimur viðureignum. Valur vann átjan marka stórsigur gegn Fram og Afturelding lagði Stjörnuna með einu marki. Síðar í kvöld mætast svo liðin sem léku til úrslita í fyrra, ÍBV og Haukar. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×