Körfubolti

Tap hjá Elvari Má en sigur hjá Tryggva Snæ

Smári Jökull Jónsson skrifar
Tryggvi Snær í leik með liði Bilbao.
Tryggvi Snær í leik með liði Bilbao. Vísir/Getty

Elvar Már Friðriksson og Tryggvi Snær Hlinason voru í eldlínunni með liðum sínum í spænsku og grísku úrvalsdeildunum í körfuknattleik í dag.

Lið PAOK mætti LAVR á útivelli í grísku deildinni í dag en leikurinn er hluti af keppni neðstu sex liða deildarinnar um að halda sæti sínu í deildinni á næsta tímabili. PAOK fékk áhugaverðan liðsstyrk á dögunum þegar NBA-leikmaðurinn Kevin Porter Jr. gekk til liðs við félagið og hann spilaði í dag.

Leikurinn var jafn og spennandi og skiptust liðin á að vera með forystuna. PAOK leiddi 24-22 eftir fyrsta leikhluta en heimaliðið var fimm stigum yfir í hálfleik, staðan þá 47-42.

Munurinn í þriðja leikhluta fór mest í fjórtán stig en í lokafjórðungnum átti PAOK gott áhlaup. Liðið minnkaði muninn í 87-85 þegar þrjár sekúndur voru eftir. Tíminn var of naumur til að jafna metin og heimamenn náðu að bæta við tveimur stigum úr vítum. Lokatölur 89-85.

Elvar Már og félagar í PAOK máttu sætta sig við tap í dag.@BASKETBALLCL

Elvar Már lék 34 mínútur með PAOK í dag, mest af öllum leikmönnum liðsins. Hann skoraði 11 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 4  fráköst. Kevin Porter Jr. skoraði 14 stig í leiknum en hitti illa úr sínum skotum.

Á Spáni tók lið Tryggva Snæs Hlinasonar Bilbao á móti Gran Canaria í ACB-deildinni. Eftir jafnan fyrri hálfleik tók Bilbao frumkvæðið og leiddi með þrettán stigum fyrir lokafjórðunginn.

Lið Bilbao jók muninn í upphafi fjórða leikhlutans og þrátt fyrir áhlaup gestanna undir lokin sigldi Bilbao nokkuð þægilegum sigri í höfn. Lokatölur 81-71 en Tryggvi Snær lék í rúmar 20 mínútur í leiknum. Hann skoraði 8 stig og tók 6 fráköst. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×