Handbolti

Frá­bær fyrsti dagur hjá Degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson byrjar vel með Króata.
Dagur Sigurðsson byrjar vel með Króata. Getty/Noushad Thekkayil

Dagur Sigurðsson stýrði króatíska handboltalandsliðinu til sannfærandi sex marka sigurs í sínum fyrsta leik sem landsliðsþjálfari Króata.

Króatía vann 35-29 sigur á Austurríki í fyrsta leik liðanna í umspili um sæti á Ólympíuleikunum.

Dagur fékk ekki langan tíma til að undirbúa liðið enda nýtekinn við og það er því mikill léttir fyrir alla að byrja svona vel.

Ivan Martinovic var markahæstur hjá Króötum með níu mörk, Zvonimir Srna var með sex mörk og Mario Sostarić skoraði fimm mörk. Luka Cindrić skoraði fjögur mörk.

Þjóðverjar unnu Alsír í hinum leik riðilsins fyrr í dag og það lítur út fyrir að liðin með íslensku þjálfarana séu í frábærum málum að tryggja sig inn á leikana.

Staðan var jöfn í hálfleik, 16-16, en Króatar byrjuðu seinni hálfleikinn vel og náðu strax þriggja marka forskoti, 20-17, eftir 4-1 sprett í upphafi hans.

Lærisveinar Arons Kristjánssonar í Barein áttu ekki mikla möguleika á móti sterku spænsku liði og urðu að sætta sig við tólf marka tap, 39-27, eftir að hafa verið sjö mörkum undir í hálfleik, 18-11.

Barein á eftir að mæta Brasilíu og Slóveníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×