Um­fjöllun: Stjarnan - Valur 26-32 | Valur flaug inn í úr­slitin

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur Valsmanna í kvöld.
Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur Valsmanna í kvöld. vísir/hulda margrét

Valur mun leika til úrslita Poweradebikarsins gegn ÍBV á laugardaginn. Varð það ljóst eftir sannfærandi sigur Valsmanna á Stjörnunni í undanúrslitum í kvöld. Lokatölur 26-32.

Leikurinn var í járnum fyrstu tíu mínútur leiksins og skiptust liðin á að leiða. Staðan 4-4 eftir tíu mínútna leik og markmenn beggja liða að verja vel.

Þá tóku Valsmenn yfirhöndina og skoruðu þrjú mörk í röð, þar á meðal eitt þar sem Róbert Aron Hostert stal boltanum af Stjörnunni þegar þeir vor nýbúnir að taka miðju. Hömruðu Valsmenn járnið á meðan það var heitt og var staðan 5-9 þeim í vil eftir 15 mínútna leik. Tók þá Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, leikhlé til þess að koma skikk á sóknarleik sinna manna sem var dapur á þessum kafla.

Leikmenn Stjörnunnar tóku þeirri leiðsögn vel og náðu að minnka muninn niður í eitt mark á næstu tíu mínútum, staðan 11-12 fyrir Val.

Jón Ásgeir Eyjólfsson, línumaður Stjörnunnar, fékk á þeim tímapunkti tveggja mínútna brottvísun fyrir fót. Valsmenn nýttu sér liðsmuninn vel og þann byr sem því fylgdi og gott betur og skoruðu síðustu fimm mörk fyrri hálfleiksins. Staðan í hálfleik 11-17.

Valsmenn hófu síðari hálfleikinn með sama krafti og þeir luku þeim fyrri og skoruðu þrjú af fyrstu fjórum mörkum síðari hálfleiksins. Átta marka munur og fjallið orðið svo gott sem ókleift fyrir Garðbæinga.

Valur náði loks tíu marka forystu þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum og ljóst hverjir myndu leika gegn ÍBV um bikarinn á laugardaginn. Staðan 17-27.

Eftir það flaut leikurinn áfram og reyndu Valsarar að spila á öllum leikmannahópnum til þess að vera eins frískir og hægt er fyrir laugardaginn.

Af hverju vann Valur?

Einfaldlega betra liðið vann. Valsmenn hlupu hraðar, nýttu færin betur og voru klókari í öllum sínum aðgerðum. Algjör klisja, en Valsliðið mallaði bara áfram í gegnum þennan leik án þess að Stjörnumenn næðu að beita nokkrum vörnum.

Hverjir stóðu upp úr?

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals, varði 18 skot og var með rúmlega 40 prósent markvörslu. Fá lið vinna Val þegar Björgvin Páll er í þessum ham.

Benedikt Gunnar Óskarsson, leikstjórnandi Vals, skoraði tíu mörk og leiddi sitt lið áfram sóknarlega. Klárlega einn besti, ef ekki besti, leikmaður hér á landi um þessar mundir.

Hvað gekk illa?

Dapur sóknarleikur Stjörnunnar á lokakafla fyrri hálfleiksins reyndist afar dýrkeyptur fyrir Garðbæinga. Liðið tapaði klaufalegum boltum á þeim kafla og Valsmenn mynduðu sér góða forystu sem þeir byggðu svo á í síðari hálfleik.

Hvað gerist næst?

Úrslitaleikur Powerade bikarsins fer fram á laugardaginn klukkan 16:00 þar sem Valsmenn mæta ÍBV, líkt og fyrr segir.

Eftir þessa bikarhelgi tekur landsleikjahlé við þar sem íslenska landsliðið mætir Grikkjum í tveimur æfingarleikjum ytra.

Björgvin Páll Gústavsson og félagar eru komnir í úrslitaleik.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Björgvin Páll: Spennustigið er hátt og hraðinn er mikill

Björgvin Páll Gústavsson var ákaflega hress eftir leik og var ánægður með sitt lið þrátt fyrir hátt spennustig í upphafi leiks.

„Skemmtilegur leikur. Það er hátt tempó í þessu. Það er alltaf smá geðshræring sem kemur yfir bæði lið þegar flautað er til leiks hérna á dúknum í Höllinni. Það er bara eitthvað sem allir vilja taka þátt í. Spennustigið er hátt og hraðinn er mikill og skemmtilegt. Ég held að menn hafi bara fundið alla orkuna í húsinu þegar flautað var til leiks.“

Björgvin Páll taldi hraðan í Valsliðinu ríða baggamuninn í leiknum í kvöld.

„Við bara náum að halda uppi hraðanum okkar og náum að refsa þeim fyrir. Öll auðveld mörk sem við skorum eru eftir að þeir hafi skorað líka. Þannig að við náðum að halda uppi hraðanum og skora auðveld mörk. Svo erum við bara á tánum allan leikinn, erum mjög skipulagðir og vel undirbúnir af Óskari og Antoni. Við skilum þessu svo bara fallega í hús hérna í 60 mínútur.“

Aðspurður hvað Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, lagði áherslu á í hálfleik hafði Björgvin Páll þetta að segja.

„Bara mæta stinnir og flottir eins og við vorum að gera í fyrri hálfleik. Það hefur aðeins loðað við okkur að vera ekki alveg klárir fyrstu 4-5 mínúturnar, en við mættum bara alveg klárir. Við erum með geggjað lið og getum spilað á mörgum mönnum og getum haldið uppi hraðanum.“

Sáttur með þína frammistöðu í kvöld?

„Já. Kannski aðeins ósáttur með byrjunina á leiknum. Var ekki alveg að finna mig í skotunum fyrir utan til að byrja með en þegar gaurarnir eru að djöflast eins og skepnur fyrir framan mig þá er mín skylda að verja nokkra bolta.“

Björgvini Páli líst vel á rimmuna sem er fram undan gegn ÍBV á laugardaginn. Fókusinn er þó fyrst á kvennalið Vals sem leikur til undanúrslita á morgun gegn ÍR.

„Mér líst bara mjög vel á laugardaginn en næsti leikur hjá okkur er á morgun hins vegar hjá stelpunum okkar. Við erum með fullan fókus á það og svo kemur ÍBV.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira