Handbolti

Fast skot og oln­boginn enn að angra Viktor Gísla

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson missir af næstu landsleikjum.
Viktor Gísli Hallgrímsson missir af næstu landsleikjum. VÍSIR/VILHELM

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson varð að hætta við þátttöku í vináttulandsleikjunum við Grikkland síðar í þessum mánuði, vegna meiðsla í olnboga.

Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem að meiðsli í olnboga angra Viktor Gísla en þau hafa reglulega komið upp frá því að hann meiddist fyrst í september 2022.

Að þessu sinni tóku meiðslin sig upp í leik Viktors með Nantes gegn Dijon í frönsku 1. deildinni síðasta föstudag.

Í samtali við Vísi segir Viktor orsökina vera fast skot sem hann fékk í höndina. Erfitt sé að segja til um hve lengi hann verði frá keppni og staðan metin dag frá degi þar til að verkurinn verði horfinn.

Vegna meiðsla Viktors var Ágúst Elí Björgvinsson kallaður inn í íslenska landsliðshópinn sem mætir Grikklandi í Aþenu 15. og 16. mars. Björgvin Páll Gústavsson er einnig í hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×