Viðskipti innlent

Loðnan við Vest­firði ekki nægi­lega mikil

Kristján Már Unnarsson skrifar
Birkir Bárðarson fiskifræðingur er verkefnisstjóri loðnuleitarinnar.
Birkir Bárðarson fiskifræðingur er verkefnisstjóri loðnuleitarinnar. Sigurjón Ólason

Loðnan sem fannst undan Patreksfirði í gær reyndist ekki vera í nægilegu magni til að unnt sé að heimila veiðar. Von um loðnuvertíð er því orðin veik og blasir loðnubrestur við þennan veturinn. Fulltrúar Hafrannsóknastofnunar funda með fulltrúum útgerðarinnar í dag um stöðuna.

Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var fiskiskipinu Heimaey snúið við síðdegis í gær eftir að ábending barst frá línubáti um loðnu í Víkurál. Heimaey var þá á heimsiglingu af Vestfjarðamiðum eftir að hafa lokið loðnuleit með starfsmenn Hafrannsóknastofnunar um borð.

„Heimaey sá loðnu á grunnunum við Víkurál en það var ekki í neinu magni sem skiptir máli fyrir heildarmyndina,“ sagði Birkir laust fyrir hádegi.

Heimaey kom á svæðið í gærkvöldi og lauk yfirferð sinni í morgun. Spurður hvort þarna hafi verið svokölluð vestanganga á ferð segir Birkir að það megi reikna með að loðnan hafi verið að ganga til hrygningar en ítrekar að magnið hafi ekki verið afgerandi fyrir heildarmyndina.

Heimaey VE-1 er eitt af skipum Ísfélagsins.Vilhelm Gunnarsson

Þetta var þriðja loðnuleitin frá áramótum en óvíst er hvort reynt verði að leita betur. Útgerðarfyrirtæki hafa greitt tvo þriðju hluta kostnaðar en Hafrannsóknastofnun þriðjung.

„Við munum funda með útgerðinni seinna í dag til að fara yfir stöðuna. Það er ekki búið að ákveða framhaldið,“ segir Birkir.

Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson verða ekki tiltæk í loðnuleit á næstunni þar sem þau verða bæði í svokölluðu togararalli kringum landið. Togararnir Gullver og Breki taka einnig þátt í rallinu. Skipin mun þó að einhverju leyti vakta miðin gagnvart loðnu og verða með bergmálsmælana á upptöku.


Tengdar fréttir

Hafði lokið loðnuleit en snúið við til að kanna vestangöngu

Fiskiskipið Heimaey VE var á siglingu af Vestfjarðamiðum í dag áleiðis til heimahafnar eftir að hafa lokið loðnuleit þegar ákvörðun var tekin um að snúa skipinu til frekari leitar. Ástæðan er vísbending sem barst síðdegis um loðnugöngu undan Patreksfirði.

Engar torfur fundist enn í loðnuleitinni

Þriðja loðnuleitin frá áramótum, sem núna stendur yfir, hefur enn sem komið er ekki skilað neinni viðbót sem gefur tilefni til að ætla að grænt ljós verði gefið á loðnuveiðar þennan veturinn. Tvö leitarskip af þremur hafa lokið sinni yfirferð en það þriðja heldur áfram að leita næstu tvo til þrjá daga.

Segja að loðnan gæti verið að bíða eftir nýju tungli

Starfsmenn Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum velta því nú fyrir sér hvort loðnan hafi ekki enn fundist vegna þess að hún bíði eftir nýju tungli. Það er byggt á gamalli japanskri sjómannaspeki.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×