Sport

Sverrir Þór: Sagði við Söru að hún þyrfti ekki að gera krafta­verk í hverjum leik

Andri Már Eggertsson skrifar
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður með sigurinn
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður með sigurinn Vísir/Hulda Margrét

Topplið Keflavíkur valtaði yfir Grindavík 95-67. Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, var afar ánægður með sigurinn og hrósaði Söru Rún Hinriksdóttur í hástert.

„Við enduðum fyrri hálfleik rosalega vel. Við spiluðum góða vörn og keyrðum í bakið á þeim sem skilaði auðveldum körfum. Við byggðum upp 13 stiga forskot og síðan í síðari hálfleik hleyptum við þeim aldrei inn í leikinn,“ sagði Sverrir Þór eftir leik.

Sverrir var ánægður með að liðið gaf ekkert eftir þrátt fyrir að vera þrettán stigum yfir í hálfleik og byrjaði síðari hálfleik afar vel.

„Það var lykilatriði að byrja síðari hálfleik vel. Grindavík er með hörkulið og það var ekki þannig að þetta hafi verið búið í hálfleik. Við þurftum að byrja síðari hálfleik af krafti svo þær myndu ekki koma strax til baka.“

„Þær komu allar við sögu hjá okkur í þó nokkrar mínútur og munurinn hélst eiginlega sem var jákvætt.“

Sara Rún Hinriksdóttir kom til Keflavíkur í janúar og var að spila sinn fimmta deildarleik með liðinu. Sverrir var afar ánægður með hennar framlag.

„Hún er frábær leikmaður og góð viðbót. Hún er uppalin í Keflavík og það vildu allir í félaginu fá hana aftur heim og hún er að koma vel inn í þetta.“

„Ég sagði við hana um daginn að hún þyrfti ekkert að gera eitthvað kraftaverk. Hún þarf ekki að vera með 20-30 stig í hverjum einasta leik. Hún er frábær varnarmaður og tekur mikið til sín. Hún gerir helling fyrir okkur og er frábær viðbót við liðið. Hún þarf bara að vera annar sterkur hlekkur í keðjunni,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×