Körfubolti

Sviss­neskur lands­liðs­maður í B-deildar­liði Ár­manns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Laurent Zoccoletti í verkefni með svissneska landsliðinu.
Laurent Zoccoletti í verkefni með svissneska landsliðinu. Fiba.basketball

Það eru ekki bara leikmenn úr Subway deild karla í körfubolta sem eru uppteknir með landsliðum sínum í þessum landsliðsglugga.

1. deildarlið Ármanns horfði líka á eftir leikmann sínum í landsliðsverkefni.

Laurent Zoccoletti, leikmaður Ármanns, var valinn í svissneska landsliðið fyrir komandi leiki í forkeppni HM 2027.

„Við erum gríðarlega stolt af okkar manni sem hefur komið sér til baka eftir erfið meiðsli og hefur verið virkilega öflugur með okkur Ármenningum upp á síðkastið,“ segir í frétt á miðlum Ármanns.

Laurent fór frá Íslandi á sunnudaginn þar sem hann hélt til æfinga með svissneska landsliðinu. Sviss mætir Aserbaísjan og Írlandi í undankeppni HM á morgun og sunnudag.

Ármenningar hafa vegna landsliðsvals Zoccoletti látið færa leik ÍR og Ármanns í 1. deildinni en hann átti að fara fram næstkomandi föstudag. Hann hefur verið færður til mánudagsins 11. mars.

Zoccoletti hefur spilað þrettán deildarleiki með Ármanni í vetur og í þeim er hann með 12,0 stig og 10,5 fráköst að meðaltali í leik. Hann er einnig með 1,5 stolinn bolta og 1,1 varið skot í leik.

Í síðasta leik var Zoccoletti með 19 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar á móti toppliði Fjölnis en Ármann er bara í tíunda sæti af tólf liðum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×