Körfubolti

Austrið vann Stjörnu­leikinn og leik­menn hafa aldrei skorað meira

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Damian Lillard var valinn mikilvægasti leikmaður leiksins en hér er hann með verðlaunagripinn ásamt liðsfélaga sínum hjá Milwaukee Bucks, Giannis Antetokounmpo.
Damian Lillard var valinn mikilvægasti leikmaður leiksins en hér er hann með verðlaunagripinn ásamt liðsfélaga sínum hjá Milwaukee Bucks, Giannis Antetokounmpo. Getty/Stacy Revere

Það vantaði ekki stigin þegar Austurdeildin fagnaði sigri í Stjörnuleiknum í Indianapolis í nótt.

Nú var aftur keppni á milli deildanna og Austurdeildin vann 211-186 sigur á Vesturdeildinni.

Þetta var nýtt stigamet því alls voru skoruð 397 stig í leiknum. Gamla metið voru 374 stig frá árinu 2018.

Ekkert lið hefur heldur skorað meira í einum leik en þessi 211 stig sem Austurdeildin skoraði í leiknum.

Damian Lillard hjá Milwaukee Bucks var valinn mikilvægasti leikmaður leiksins en hann skoraði 39 stig fyrir sigurliðið. Hann skoraði ellefu þriggja stiga körfur í leiknum.

Karl-Anthony Towns hjá Vesturdeildinni, skoraði þá mest allra eða 50 stig. Hann er aðeins fjórði leikmaðurinn í 73 ára sögu Stjörnuleiksins sem nær að skora fimmtíu stig.

„Við ætlum bara að skemmta okkur. Það voru allir að spyrja hvað væri stigametið. Við fundum það út og ætluðum að slá það,“ sagði Giannis Antetokounmpo, fyrirliði Austurdeildarliðsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×