Körfubolti

Lillard vann annað árið í röð og Curry hafði betur í ein­víginu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lillard með verðlaunin eftir sigurinn í nótt.
Lillard með verðlaunin eftir sigurinn í nótt. Vísir/Getty

Þriggja stiga keppni NBA-deildarinnar var háð í nótt. Bæði fór hin hefðbundna keppni fram en einnig mættust Steph Curry og Sabrina Ionescu í einvígi bestu skytta NBA og WNBA-deildanna.

Þriggja stiga keppnin í nótt var tvískipt. Annars vegar kepptu átta leikmenn í hefðbundinni keppni þar sem hver leikmaður fær nokkra bolta til að skjóta á fjórum mismunandi stöðum. Keppendur fá eina mínútu til að klára skotin en á hverjum stað er einn bolti sem telur tvöfalt.

Þeir Malik Beasley, Jalen Brunson, Tyrese Halliburton, Damian Lillard, Lauri Markkanen, Donovan Mitchell, Karl-Anthony Towns og Trae Young mynduðu hópinn sem kepptu í fyrri keppninni.

Lillard, Young, Towns og Halliburton voru jafnir eftir fyrstu umferðina og þurfti því bráðabana til að skera úr um hverjir kepptu til úrslita. Eftir bráðabanann stóðu þeir Towns, Lillard og Young eftir og þar var að Lillard, sem skipti frá Portland Trailblazers til Milwaukee Bucks fyrir tímabilið, sem stóð uppi sem sigurvegari.

Þetta er annað árið í röð sem Lillard vinnur þriggja stiga keppnina. Síðastur til að vinna tvö ár í röð var Jason Kapono sem vann 2007 og 2008.

Curry hafði betur í einvíginu

Hins vegar mættust þau Steph Curry og Sabrina Ionescu í einvígi en þau voru fulltrúar NBA og WNBA-deildanna. Ionescu byrjaði einvígið. Hún setti niður hvern boltann á fætur öðrum og endaði með 26 stig sem var jöfnun á hæsta stigaskori í hinni keppninni.

Það var því pressa á Curry þegar hann hóf leik. Curry setti niður öll skotin sín á vængjunum og tryggði sér sigur með því að setja fjögur af fimm skotum í horninu. Curry endaði með 29 stig og tryggði sér þar með sigur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×