Handbolti

Fjögur mörk frá Sig­valda í stór­sigri

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigvaldi Björn og félagar unnu sigur í dag.
Sigvaldi Björn og félagar unnu sigur í dag. Kolstad

Sigvaldi Björn Guðjónsson fann netmöskvana í fjögur skipti þegar Kolstad vann sigur í norsku úrvalsdeildinni í dag. Elín Jóna Þorsteinsdóttir þurfti hins vegar að sætta sig við tap í Danmörku.

Fyrir leik Kolstad og Bækkelaget í dag var búist við þægilegum leik fyrir topplið Kolstad enda Bækkelaget á meðal neðstu liða.

Sú varð líka raunin. Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur skoraði Kolstad níu mörk í röð í stöðunni 7-7 og leiddu með tíu mörkum í hálfleik. Staðan þá 19-9.

Síðari hálfleikurinn var því í raun aðeins formsatriði. Kolstad missti muninn aldrei niður fyrir tíu mörkin og fagnaði að lokum 35-25 sigri. Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fjögur mörk fyrir Kolstad í dag sem er með fimm stiga forskot á toppi norsku deildarinnar eftir smá bras í upphafi tímabils.

Ótrúlegur endir hjá liði Elínar Jónu

Í Danmörku var landsliðsmarkvörðuinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir mætt í slaginn með liði Álaborgar sem situr í efsta sæti næst efstu deildar. Álaborg mætti Holstebro á útivelli sem var í fjórða sæti fyrir leikinn.

Fyrri hálfleikur var jafn og voru gestirnir frá Álaborg í ágætri stöðu að honum loknum og leiddu 15-12. Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum og þegar hann var hálfnaður var staðan 21-21. Þá varð hins vegar algjört hrun hjá liði Elínar Jónu.

Heimaliðið hreinlega valtaði yfir lið Álaborgar síðustu fimmtán mínúturnar og skoruðu fjórtán mörk gegn fjórum. Lokatölur 34-25 fyrir Holstebro og fyrsta tap Álaborgar á tímabilinu staðreynd.

Í tölfræði leiksins eru því miður ekki gefið upp hversu mörg skot markmenn liðanna vörðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×