Skoðun

Við­reisn hætt við ESB?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Miðað við grein Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, á Vísir.is á dögunum mætti helzt halda að flokkurinn hafi gefið meginstefnumál sitt um inngöngu í Evrópusambandið upp á bátinn. Þar gagnrýndi formaðurinn umfang hins opinbera hér á landi og sagði að í ríkisstjórn yrði eitt af forgangsmálunum Viðreisnar að ganga hreint til verka í þeim efnum. Fyrsta skrefið yrði að fækka ráðuneytum. Þetta er auðvitað góðra gjalda vert en er hins vegar algerlega á skjön við markmið flokksins um inngöngu í sambandið.

Kæmi þannig til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið hefði það meðal annars í för með sér að fara þyrfti í umfangsmikla stofnanauppbyggingu hér á landi, eins og útþensla hins opinbera kallast á stjórnsýslumáli, til þess að hægt væri að standa undir þeim viðamiklu skuldbindingum sem fylgja veru í sambandinu. Um þetta má til dæmis einfaldlega lesa í gögnum frá Evrópusambandinu sjálfu í tengslum við misheppnaða umsókn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um inngöngu í sambandið.

Telur stjórnsýslu Íslands of litla

Til að mynda er smæð íslenzku stjórnsýslunnar að áliti Evrópusambandsins til umfjöllunar í skjali á vegum framkvæmdastjórnar þess frá árinu 2011 sem nefnist „Commission decision of 08.04.2011 on a Multi-annual Indicative Planning Document (MIPD) 2011-2013 for Iceland“ og unnið var í kjölfar úttektar sambandsins á stjórnsýslu landsins vegna umsóknar vinstristjórnarinnar. Leynir sér ekki það sjónarmið Evrópusambandsins að vegna smæðar sé stjórnsýslan alls ekki í stakk búin til þess að ráða við inngöngu í það:

„Heilt á litið er [íslenzka] stjórnsýslan lítil og býr við takmarkaðar fjárveitingar. Verulegur niðurskurður á opinberum útgjöldum hefur enn fremur átt sér stað til þess að takast á við fjárhagserfiðleikana í kjölfar efnahagskrísunnar árið 2008. Niðurskurðurinn hefur dregið enn frekar úr getu stjórnsýslu Íslands til þess að sinna undirbúningi fyrir inngöngu í Evrópusambandið sem þó var takmörkuð að stærð fyrir. […] Ísland mun þurfa að byggja upp getu stjórnsýslunnar til þess að taka upp, þýða og innleiða löggjöf sambandsins og koma á laggirnar öllum þeim nauðsynlegu innviðum sem vera innan þess gerir kröfu um.“

Minna fylgi en í kosningunum

Forystumenn Viðreisnar hafa ekki sízt beint spjótum sínum að stjórnarráðinu og starfsmannafjölda þess. Fjallað er um stjórnarráðið í áðurnefndu skjali Evrópusambandsins og ljóst að það er þvert á móti allt of fámennt að mati framkvæmdastjórnar sambandsins: „Stjórnsýsla Íslands er lítil. Hjá stjórnarráðinu starfa um 700 opinberir starfsmenn og það samanstendur af tíu ráðuneytum. Undir hvert þeirra heyrir nokkur fjöldi opinberra stofnana. Ráðuneytin eru lítil og hafa á bilinu 26 til 214 starfsmenn. Að meðaltali 58 starfsmenn.“

Trúverðugleiki þess að gagnrýna umfang hins opinbera hér á landi er vitanlega enginn þegar meginstefna Viðreisnar felur í sér að það yrði þvert á móti stóraukið. Væri forystumönnum flokksins raunverulega umhugað um það að draga úr umfangi hins opinbera væri stefna hans ljóslega ekki að ganga i Evrópusambandið sem hefði í för með sér mikla útþenslu hins opinbera samkvæmt gögnum sambandsins sjálfs! Er að furða að Gallup skuli mæla flokkinn með minna fylgi en hann hlaut í síðustu kosningum – í stjórnarandstöðu?

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál)



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×