Körfubolti

Álfta­nes fær einn efni­legasta körfu­bolta­mann landsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Róbert Sean Birmingham mun klára tímabilið með Álftanesi og það eru margir spenntir að sjá hvað hann hefur bætt sig út í Bandaríkjunum.
Róbert Sean Birmingham mun klára tímabilið með Álftanesi og það eru margir spenntir að sjá hvað hann hefur bætt sig út í Bandaríkjunum. Álftanes

Það er nóg af gleðitíðindum úr herbúðum nýliðana af Álftanesi. Í gær komst liðið í bikarúrslitin í Laugardalshöllinni með sigri á Grindavík og í dag tilkynnti félagið að einn efnilegasti körfuboltamaður Íslands væri á leiðinni til félagsins.

Róbert Sean Birmingham hefur ákveðið að koma heim frá Bandaríkjunum og klára þetta tímabil með Álftanesliðinu í Subway deild karla í körfubolta. Hann kemur til liðsins um leið og tímabilinu lýkur hjá honum og liðsfélögum hans í Concorde Academy í miðskólaboltanum í Bandaríkjunum.

Róbert hefur spilað með öllum yngri landsliðum Íslands en hann er uppalinn í Njarðvík.

Róbert er 19 ára, 202 sentímetra vængmaður. Á sínum ferli hefur hann heillað margan þjálfarann, sem endurspeglaðist meðal annars í áhuga stórra háskólaliða á honum. Sá áhugi endaði með því að Róbert ákvað að ganga til liðs við skólalið Indiana State, en þekktasti leikmaður í sögu þess skóla er goðsögnin Larry Bird. Róbert mun fara til Indiana State eftir dvöl sína á Álftanesi.

Áður en Róbert hóf að leika í bandaríska miðskólaboltanum var hann á Spáni. Þar var hann í tvö ár hjá akademíu spænska stórliðsins Baskonia. Hann hefur verið lykilmaður í yngri landsliðum Íslands og þykir mikið efni. Hann lék upp yngri flokkana með Njarðvík og hóf að leika með meistaraflokki félagsins 15 ára að aldri. Sem fyrr segir kemur hann á Nesið að tímabili sínu loknu í Bandaríkjunum og er væntanlegur til landsins einhverntímann í febrúarmánuði.

„Við á Álftanesi hlökkum til að fá Róbert inn í liðið. Hann er mikið efni og ekki skemmir fyrir að hann kemur af einstaklega góðu fólki. Hann hefur átt frábæran yngri flokka feril, hvort sem það er hér á landi, á Spáni eða í Bandaríkjunum. Það er gaman fyrir okkur að vera hluti af hans vegferð og gaman fyrir hann að vera hluti af flottu liði og verða hluti af sterkri liðsheild sem myndast hefur á tímabilinu og undanfarin ár. Við erum afskaplega glöð með þessa niðurstöðu,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftnesinga.

„Ég hlakka til að koma aðeins heim til Íslands og spila í Subway deildinni. Ég er ótrúlega þakklátur Kjartani Atla og öllum í stjórninni hjá Álftanes að gefa mér þetta tækifæri. Kjartan Atli er einn af efnilegustu þjálfurum á landinu og það verða miklar fyrirmyndir með mér í liðinu“ segir Róbert Sean Birmingham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×