Skoðun

Út­spil Svan­dísar

Sigmar Guðmundsson skrifar

Það blasir við öllum að staða Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, er mjög veik. Það er auðvitað með talsverðum ólíkindum að undanfarnar vikur hefur ráðherra setið í meirihlutastjórn án þess að njóta stuðnings samstarfsflokkanna. Útspili hennar í morgun, um að óháðir aðilar fari yfir þá stjórnsýslu og lagaumgjörð sem gildir um hvalveiðar, er ætlað að lægja öldurnar. Óvíst er að það dugi til ef marka má viðbrögðin.

Þó eru þær raddir farnar að heyrast að hinir stjórnarflokkarnir ætli mögulega að verja ráðherrann vantrausti með því að vísa í stór verkefni sem blasa við. Er þá einkum talað um aðgerðir fyrir Grindvíkinga og svo að ná niður verðbólgu og vöxtum.

Allir sjá og vita að hingað til hefur þessi ríkisstjórn ekki náð saman um nauðsynlegar aðgerðir í ríkisfjármálum til að slá á verðbólguna. Það mun ekki breytast í bráð. Í stjórnmálunum er svo almenn samstaða um að ríkisvaldinu beri að koma Grindvíkingum til hjálpar, það er ekki bara bundið við þennan stjórnarmeirihluta. Grindvíkingar þurfa samstíga ríkisstjórn þar sem innanmein og átök flækjast ekki fyrir bráðnauðsynlegu viðbragði þeim til handa.

Það var áhugavert að heyra í Ólafi Þ Harðarsyni í fréttnum í gærkvöldi. Ég held að það sé hins vegar ekki rétt hjá honum að VG sætti sig við að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiði atkvæði með vantrausti á Matvælaráðherra. Þingflokksformaður VG hefur talað þannig að ef allir stjórnarþingmenn verja ekki ráðherrann, þá springur stjórnin.

Sjálfur hef ég aldrei stutt Svandísi né aðra ráðherra í þessari ríkisstjórn og mun greiða atkvæði með vantraustinu. Það er brýnt að koma þessari ríkisstjórn frá völdum. Miðað við mjög stór orð nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins á liðnum vikum, hlýtur það að verða niðurstaðan.

Trúir því einhver að Jón Gunnarsson, Hildur Sverrisdóttir, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason og Teitur Björn Einarsson, sem harðast ganga fram gegn Svandísi, séu slíkar geðluðrur að þau standi ekki við stóru orðin. Svandís fer ekki sjálfviljug úr ráðuneytinu, það sást glögglega á útspili hennar í morgun, og þessir þingmenn sætta sig varla við að ráðherrann haldi embætti gegn því einu að Hvalveiðar færist yfir í annað ráðuneyti eins og rætt er um. Það yrði niðurlægjandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það myndi staðfesta enn og aftur að einu hugsjónir flokksins í þessu samstarfi er að verma áhrifalausa ráðherrastóla á meðan VG stýrir landinu.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×