Skoðun

Er ein­hver full­orðinn á svæðinu?

Guðjón Idir skrifar

Sjáum fyrir okkur skólabekk. Það er enginn fullorðinn á svæðinu (kannski fullorðinn í aldri). Það eru einn eða tveir krakkar sem leggja skotmörkin sem þeim finnast auðveldust í einelti. Allir í bekknum leyfa því að viðgangast. Flestir taka stöku sinnum þátt, bæði til að velja „rétt lið” og þannig kaupa sér vinsældir, en líka til að fyrirbyggja að þau sjálf verði skotmörk síðar meir.

Þessi uppdregna mynd lýsir heiminum og samskiptum þjóða, það er að segja, samskiptum þeirra sem fara með völd ríkra og vopnvæddra þjóða gagnvart íbúum þjóða sem á marga vegu standa verr. Og Ísland er þarna klappstýra eineltisseggjanna sem undiroka þá sem síst geta varist. Meðhlæjandi í skólastofunni.

Þetta er alvarlegt í skólastofum en þegar þetta er heimurinn allur þá er nærtækast að kalla þetta kollektífa siðblindu. Það er enginn fullorðinn á svæðinu. Ég hef skrifað þingheimi öllum til að ýta á eftir að stjórnmálasambandi við Ísrael - sem er að fremja þjóðarmorð á palestínsku þjóðinni - sé slitið. Ég hef spurt hvort þau ætli sér í alvöru að sitja hjá. Hvort þau ætli sér ekki að beita sér á alþjóðavettvangi. En engin svör fengið.

Það er enn tækifæri til að styðja málsókn Suður Afríku á hendur Ísrael hjá Alþjóðadómstólnum, og vera þar með fyrsta Vestræna ríkið til að sýna lágmarks sómakennd, heiðarlega samvisku og manndóm. Þá spurði ég hvort frami og efnahagslegir hagsmunir vægu þyngra en heiðarleg samviska. Það hefur líklega alltaf átt við. Íslensk stjórnvöld hafa sjaldan tekið einhvers konar áhættur til að fylgja sannfæringu þess sem þekkir muninn á réttu og röngu, þegar það er í óþökk ríkja sem mestu ítökin hafa og ógeðslegustu sögusporin.

Ég kalla enn og aftur eftir því að þjóðarmorð Ísraels sé harðlega fordæmt af íslenskum stjórnvöldum, að stjórnmálasambandi sé tafarlaust slitið, og að sjálfsögðu að stjórnvöld beiti sér raunverulega fyrir því að sameina fjölskyldur þeirra palestínubúa sem hingað eru komnir til að bjarga þeim sem hægt er að bjarga frá morðóðum ísraelsher.

Hvað ætlið þið að horfa upp á mörg börn myrt? Hvað ætlið þið að horfa upp á marga lækna, hjúkrunarfræðinga, og sjúkraliða myrta? Hvað á að sætta sig að mörg börn þurfi skurðaðgerðir án deyfingar? Hversu marga má horfa upp á farast úr hungri eða ofkælingu? Án þess að segja múkk!

Er einhver fullorðinn á svæðinu?

Höfundur er heimspekingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×