Körfubolti

Njarðvíkurkonur vonast eftir að hafa unnið í kanalottóinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Selena Lott stóð sig vel í bandaríska háskólakörfuboltanum með Marquette háskólanum.
Selena Lott stóð sig vel í bandaríska háskólakörfuboltanum með Marquette háskólanum. Getty/Zach Bolinger/

Njarðvík hefur fundið sér nýjan bandarískan leikmann til að klára tímabilið með liðinu í Subway deild kvenna í körfubolta.

Selena Lott hefur samið við Njarðvík. Hún er 24 ára bakvörður sem lék í Púertó Ríkó á síðasta tímabili þar sem hún skoraði 15 stig í leik. Njarðvík segir frá þessu á miðlum sínum.

Lott átti mjög flottan háskólaferil með Marquette þar sem hún var með 1193 stig, 383 stoðsendingar og 223 stolna bolta á fjórum árum eða 9,6 stig, 3,1 stoðsendingu og 1,8 stolinn bolta í leik. Hún var mjög öflug á tveimur síðustu árunum sínum með yfir 14,7 stig og 5,2 stoðsendingar í leik.

Lott var um tíma á mála hjá WNBA liði Minnesota Lynx en fékk þó ekki tækifæri til að spila með liðinu í deildinni.

Njarðvík þurfti að bíða lengi eftir keppnisleyfi hjá hinni bandarísku Tynice Martin fyrr í vetur og Martin var síðan látin fara. Liðið hefur því spilað stóran hluta tímabilsins án bandarísks leikmanns. Njarðvík er engu að síður í þriðja sætinu og koma Lott ætti að styrkja liðið mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×