Innlent

Ó­boðinn í jarðar­för fjölskyldumeðlims og var til­kynntur til lög­reglu

Jón Þór Stefánsson skrifar
Atvik málsins hverfast um jarðarför konu, en maðurinn sem kærði málið var bundinn henni fjölskylduböndum.
Atvik málsins hverfast um jarðarför konu, en maðurinn sem kærði málið var bundinn henni fjölskylduböndum. Getty

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur úrskurðað að embætti ríkislögreglustjóra beri að veita manni aðgang að afriti símtals til neyðarlínunnar. Fyrir liggur að maðurinn er viðfang símtalsins, en í úrskurðinum kemur fram að hann hafi mætt óboðinn í jarðarför og dóttir hinnar látnu hafi tilkynnt hann til lögreglu vegna þess.

Ekki kemur fram í úrskurðinum hvar eða hvenær atvikið átti sér stað, nema að konan hafi hringt í neyðarlínuna klukkan 16:36. Konan óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna kveðjuathafnar móður sinnar. Svo virðist sem hún hafi óskað eftir íhlutun lögreglunnar vegna mannsins, sem tengdist hinni látnu fjölskylduböndum. Lögregluna bar að garði og ræddi við manninn, og svo virðist vera sem hann hafi samþykkt að vera ekki viðstaddur athöfnina.

Maðurinn óskaði síðan eftir því að fá upptöku eða nákvæmt afrit af símtalinu. Hann sagði mikilvægt fyrir sig að fá gögnin, og taldi sig eiga skilyrðislausan rétt á því, enda hefðu afskipti lögreglu falið í sér inngrip í líf hans með afgerandi hætti.

Þá vildi hann geta lagt mat á það hvers vegna lögreglan hafi orðið við erindi konunnar og komið eins og skot eftir til að koma í veg fyrir þátttöku kæranda í athöfninni. Fram kemur að fyrir liggi að dóttir hinnar látnu hafi hringt símtalið og að málið varði því ekki uppljóstrun á því hver hringdi.

Ríkislögreglustjóri sagði í umsögn sinni um málið að þó að maðurinn hefði hagsmuni umfram aðra um aðgang að gögnunum, þá vægju hagsmunir dótturinnar og hinnar látnu meira.

Úrskurðarnefnd upplýsingamála komst þó að gagnstæðri niðurstöðu, að hagsmunir mannsins vægju meira. Hann ætti rétt á því að fá heildstæða mynd af tildrögum og ástæðum þess að lögreglan var kölluð til.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×