Körfubolti

Gladdi hundruð barna með jóla­gjöfum

Sindri Sverrisson skrifar
Luka Doncic, ein stærsta körfuboltastjarna heims, hefur síðustu ár glatt börn í aðdraganda jólanna.
Luka Doncic, ein stærsta körfuboltastjarna heims, hefur síðustu ár glatt börn í aðdraganda jólanna. AP og Instagram/@lukadoncic

Slóvenska körfuboltaséníið Luka Doncic hefur glatt hjörtu hátt í 300 barna, bæði í Slóveníu og í Dallas í Bandaríkjunum, í aðdraganda jólanna.

Doncic varð pabbi í fyrsta sinn fyrir örfáum vikum þegar dóttirin Gabriela kom í heiminn, og er einnig önnum kafinn við að bera lið Dallas Mavericks á herðum sér í NBA-deildinni.

Hann gaf sér engu að síður tíma í vikunni til að bjóða fimmtíu börnum á síðasta heimaleik Dallas, gegn LA Clippers. Þar fengu börnin meðal annars að hitta Doncic sem greiddi allan ferðakostnað og máltíð fyrir þau, auk þess að leysa þau út með gjöfum eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan.

Daginn eftir leikinn fóru svo fulltrúar hjálparsamtaka, sem Doncic stofnaði, í heimsókn á sjúkrahús með handgerð teppi og húfur fyrir börn sem fæðst hafa fyrir tímann, auk þess sem mæður þeirra fengu gjafakort á snyrtistofu og í fjölskyldumyndatöku. Þá greiddi Doncic sjúkrahússreikninginn fyrir fjölda fjölskyldna barna sem fæddust fyrir tímann, samkvæmt frétt slóvenska miðilsins Ekipa 24.

Og Doncic gleymdi ekki heldur börnunum í heimalandi sínu, Slóveníu. Samtökin hans stóðu fyrir jólagleði fyrir börn og unglinga á Malca Beliceva barnaheimilinu, þar sem krakkarnir fengu heyrnatól, Jordan-föt, Lego-kassa og fleira dót í jólagjöf.

„Börnin okkar eru í mjög viðkvæmri stöðu og hafa upplifað margs konar erfiðar stundir. Yfir hátíðarnar reynum við að skapa hátíðlegan blæ fyrir þau. Með hjálp Luka Doncic samtakanna þá voru gjafirnar í þetta sinn svo sannarlega óviðjafnanlegar, dásamlegar og ógleymanlegar,“ sagði Marija Ferenc, forstjóri barnaheimilisins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×