Körfubolti

Þrettán létust þegar gamla í­þrótta­húsið hans Manu Gin­obili hrundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manu Ginobili var tekinn inn í Heiðurshöll körfuboltans árið 2022.
Manu Ginobili var tekinn inn í Heiðurshöll körfuboltans árið 2022. Getty/Maddie Meyer

Argentínska körfuboltagoðsögnin Manu Ginobili var einn þeirra sem sendi samúðarkveðjur til þeirra sem eiga sárt að binda í bænum Bahia Blanca í Argentínu.

Ástæðan fyrir því er að þakið hrundi á íþróttahúsi bæjarins í miklu óveðri og með skelfilegum afleiðingum. Að minnsta kosti þrettán létust þegar þau grófust undir þakinu.

Vindhviður mældust á meira en 140 kílómetra hraða í óveðrinu og stór hluti bæjarins var rafmagnslaus.

Ginobili varð margfaldur NBA meistari með San Antonio Spurs og er besti körfuboltamaður Argentínu frá upphafi.

Hann hefur sterka tengingu við Bahia Blanca en hann hóf feril sinn með liði Club Bahiense del Norte sem spilar heimaleiki sína í húsinu. Þetta var líka hans heimabær en hann fæddist í bænum í júlí 1977.

„Mér þykir mjög leitt að heyra hvað félagið mitt, borgin mín og svæðið er að ganga í gegnum. Ég sendi faðmlag til allra og mínar samúðarkveðjur til fjölskyldna fórnarlambanna. Bahia vertu sterk,“ skrifaði Manu Ginobili á samfélagsmiðla.

Manu Ginobili er nú 46 ára gamall og lagði skóna á hilluna árið 2018. Hann lék með liði Bahía Blanca frá 1996 til 1998. Það fór hann til ítalska félagsins Viola Reggio Calabria og svo spilaði hann í tvö ár með Virtus Bologna á Ítalíu.

Ginobili var valinn af Spurs í nýliðavalinu 1999 en gekk til liðs við félagið þremur árum síðar. Hann spilaði í sextán ár með Spurs og varð fjórum sinnum NBA-meistari. Alls var hann með 13,3 stig og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í 1057 leikjum með San Antonio Spurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×