Handbolti

„Myndi ekki segja að þetta væri skref niður á við“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ýmir Örn er á leið til Göppingen.
Ýmir Örn er á leið til Göppingen. VÍSIR/VILHELM

Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handbolta, mun færa sig um set í Þýskalandi að yfirstandandi leiktíð lokinni. Hann vildi komast í nýtt umhverfi og flyst um 100 kílómetra suður, til Göppingen.

Ýmir Örn fór frá Val til Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi árið 2020. Samningur hans við félagið rennur út eftir leiktíðina og fannst honum réttast að breyta til og flytja suður til Göppingen.

„Ég sjálfur var tilbúinn og langaði í eitthvað nýtt. Löwen hafa ekki sagt neitt við mig í langan tíma og Göppingen talaði við mig mjög snemma í haust. Hitti þá og átti mjög góðan fund með þeim. Eftir þann fund, hafandi fengið að sjá allt og skoða allt var ég mjög ánægður með þetta. Gekk frekar hratt fyrir sig eftir það,“ sagði Ýmir Örn í viðtali við Stöð 2 og Vísi.

„Maður hefur spilað nokkrum sinnum þarna, alltaf mjög stemning og frábær staður til að búa á held ég. Heild yfir er ég mjög glaður með þetta.“

Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson var inn í lúppunn meðan Ýmir Örn átti í viðræðum við Göppingen. Snorri Steinn þjálfaði línumanninn um þriggja ára skeið áður en Ýmir Örn hélt til Þýskalands.

„Ég var alveg búinn að ræða við hann og spyrja hann út í þetta. Höfum alltaf átt gott samband hvað það varðar. Hann vissi af þessu.“

Fær stærra hlutverk

„Má alveg segja að Löwen sé stærri klúbbur þannig séð en þarna ertu samt að koma inn í klúbb með mikla sögu og með frábært stuðningsfólk. Svo er deildin mjög jöfn, í fyrra eða árið áður enda þeir í 5. sæti og fara í Evrópukeppni. Þá vorum við ekki þar, þetta breytist á milli ára.“

„Myndi ekki segja að þetta væri skref niður á við þar sem ég fæ stærra hlutverk og fæ að spila meira. Ef ég stend mig,“ sagði Ýmir Örn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×