Handbolti

„Ég hef fulla trú“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar Pétursson og Ágúst Jóhannsson fara yfir málin
Arnar Pétursson og Ágúst Jóhannsson fara yfir málin Vísir/Hulda Margrét

Ágúst Þór Jóhannsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands, segir leikmenn mæta vel undirbúna til leiks við Angóla í dag. Hann hefur trú á því að íslenska liðið geti unnið og tryggt þannig sæti í milliriðli.

Það þótti líklegast fyrir fram að Ísland og Angóla myndu spila úrslitaleik um sæti í milliriðli. Leikurinn hefur verið mönnum ofarlega í huga um hríð.

„Þó við höfum nálgast hvern leik fyrir sig þá hefur maður alltaf verið með það svona aftast í hausnum að þetta gæti endað svona. Það er bara skemmtilegt verkefni.“ segir Ágúst en hvernig er spennustigið í hópnum?

„Mér fannst það, uppi á hóteli í dag, bara vera gott. Þær eru yfirvegaðar og það er búið að fara vel yfir þetta. Við þurfum auðvitað bara að ná í góða frammistöðu í dag, varnarlega sérstaklega og hlaupa vel til baka. Þá getum við búið til leik úr þessu.“

Klippa: Fara með fulla trú í verkefnið

Ísland þarf þá að byrja betur en liðið gerði gegn Slóveníu og Frakklandi.

„Byrjunin í fyrstu tveimur leikjunum hefur auðvitað bara verið mjög slök. Við höfum verið ólík sjálfum okkur. Vonandi verðum við í lagi í dag og náum að byrja þetta af fullum krafti og halda þeim krafti allan leikinn. Þær eru stórar og þungar og við þurfum að keyra vel á þær. En um leið þá fer mikil orka í varnarleikinn á móti þeim því þær eru með sterka línumenn,“

„Við þurfum bara að vera í toppstandi og ég hef fulla trú á því að við náum í góða frammistöðu í dag og góð úrslit,“ segir Ágúst.

Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.

Leik Íslands og Angóla er lýst beint á Vísi hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×