Handbolti

„Flestar að spila sinn stærsta leik á ferlinum“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Perla Ruth Albertsdóttir var valin besti leikmaður Íslands í dag af IHF.
Perla Ruth Albertsdóttir var valin besti leikmaður Íslands í dag af IHF. Vísir/Hulda Margrét

„Við ætluðum okkur sigur í þessum leik. Sást á löngum köflum að við eigum fullt erindi í að spila við þessar stelpur og gátum alveg unnið þær,“ sagði Perla Ruth Albertsdóttir eftir leik Íslands og Slóveníu á HM í handbolta.

Ísland tapaði með sex marka mun í fyrsta leik liðsins á HM. Slæm byrjun kostaði liðið en íslensku stelpurnar léku frábærlega á köflum og voru nálægt því að jafna leikinn í síðari hálfleik en Slóvenía stakk af undir lok leiks. Perla Ruth var valin best í liði Íslands í dag og ræddi við RÚV eftir leik, henni fannst Ísland eiga skilið meira úr leiknum.

„Ég man varla eftir leiknum akkúrat núna. Það komu augnablik þar sem þær fengu of auðvelda bolta og hraðaupphlaup, of auðveld víti. Fannst þær fá mun meira af auðveldum mörkum en við, ætli munurinn hafi ekki verið þar.“

Var stress ástæða fyrir slakri byrjun íslenska liðsins?

„Pottþétt eitthvað svoleiðis. Þær eru búnar að spila mörg stórmót í röð en flestar okkar á sínu fyrsta og flestar að spila sinn stærsta leik á ferlinum. Langflestar í raun að spila þann leik. Maður bjóst alveg að það yrði smá stress í byrjun.“

„Náðum næstum því að jafna, fannst við vera með þær en það small ekki alveg.“

Perla var spurð út í tilfinninguna að vera maður leiksins í íslenska liðinu.

„Mjög blendnar tilfinningar. Ég er mjög glöð og stolt. Við fengum fullt af orku frá fólkinu okkar úr stúkunni, að sjá fólkið sitt í fyrsta sinn í marga daga gaf manni mikið.“

„Geggjuð stúka, Sérsveitin og allt fólkið okkar. Íslendingar eru bara geggjaðir og við erum þakklátar fyrir hvað mörg eru mætt að styðja við bakið á okkur. Ætlum að ná í sigur fyrir íslensku þjóðina í næstu leikjum,“ sagði Perla Ruth að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×