Formúla 1

Segir önnur lið þurfa að klífa Everest til að ná Red Bull

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Toto Wolff segir önnur lið eiga langt í land til að ná Red Bull.
Toto Wolff segir önnur lið eiga langt í land til að ná Red Bull. Qian Jun/MB Media/Getty Images

Toto Wolff, liðstjóri Mercedes í Formúlu 1, segir að önnur lið þurfi að klífa Everest ætli þau sér að ná Red Bull liðinu á næsta tímabili.

Red Bull liðið, með nú þrefalda heimsmeistarann Max Verstappen í fararbroddi, tryggði sér heimsmeistaratitil bílasmiða með afar öruggum hætti á tímabilinu sem lauk nú um helgina.

Red Bull endaði tímabilið með 860 stig, sem er 451 stigi meira en Mercedes sem endaði í öðru sæti. Verstappen sjálfur endaði tímabilið með 575 stig einn síns liðs, meira en nokkuð lið á tímabilinu.

„Við þurfum að klífa Everest til að ná Red Bull,“ sagði Wolff eftir að tímabilinu lauk í gær.

Wolff hefur þó trú á því að sjöfaldi heimsmeistarinn, Lewis Hamilton, geti barist um titilinn á ný, en sjálfur virtist Hamilton ekki of bjartsýnn.

„Þetta var ekki gott, ég endaði bara níundi,“ sagði Hamilton í gær. „Þetta voru tvær slæmar keppnir í röð og Red Bull vann með 17 sekúndum í dag. Þeir hafa ekki snert bílinn sinn síðan í júlí eða ágúst þannig maður getur alveg giskað á það hversu langt þeir eru komnir fyrir næsta tímabil.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×