Skoðun

Seðla­bankinn þarf nú að lækka stýrivexti

Stefán Ólafsson skrifar

Staðan er sú að háir stýrivextir hafa verið að auka verðbólguna undanfarið. Það er vegna þess að skuldabyrði fyrirtækja hefur þyngst með þessum óvenju miklu hækkunum stýrivaxta sem gengið hafa yfir á síðastliðnu ári. Það hefur ýtt undir verðhækkanir.

Seðlabankinn hefur verið að vinna með ranga kenningu um orsakir verðbólgunnar hér á síðustu misserum, enda er árangurinn af aðgerðum hans alltof lítill. Ég útlistaði þetta í nýlegri grein í tímaritinu Vísbendingu (sjá "Hin leiðin gegn verðbólgunni").

Nú er ljóst að eldhræringarnar við Grindavík hægja hugsanlega á hagvexti og stórauka eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði, sem var of mikil fyrir. Á sama tíma eru óvenju háir stýrivextir Seðlabankans að hægja stórlega á framleiðslu nýrra íbúða, eins og Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á.

Versnandi afkoma tekjulægri heimila vegna verulega aukins húsnæðiskostnaðar hefur magnað upp þrýsting launafólks á miklar hækkanir launa í komandi kjarasamningum. Háir stýrivextir og of veikburða húsnæðisstuðningur (vaxta- og leigubætur) eiga mikinn þátt í því.

Því þarf nú að söðla um í peningastefnunni. Lækkun stýrivaxta myndi m.a. hafa eftirfarandi áhrif sem öll væru til góðs í stöðunni:

  1. Létt yrði á verðbólguþrýstingi með lækkun á skuldabyrði fyrirtækja.
  2. Byggingariðnaðurinn fengi merki um að betri tíð gæti verið í vændum sem myndi hafa jákvæð áhrif á áform um nýbyggingar íbúða.
  3. Jákvæð skilaboð yrðu þar með send til verkalýðshreyfingarinnar um að lækkun á vöxtum íbúðarlána sé handan við hornið, en það gæti stuðlað að varfærari launahækkunum á fyrsta ári nýs kjarasamnings til þriggja ára.

Seðlabankinn er nú í dauðafæri til að sýna vitræn viðbrögð við breyttum aðstæðum og að leggja gott til farsælli framvindu á næstu misserum.

Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×