Handbolti

Hákon skoraði fimm í sigri í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hákon Daði Styrmisson skoraði fimm í kvöld.
Hákon Daði Styrmisson skoraði fimm í kvöld. Marvin Ibo Guengoer - GES Sportfoto/Getty Images

Hákon Daði Styrmisson skoraði fimm mörk fyrir Eintracht Hagen er liðið vann þriggja marka sigur gegn Bjarna Ófeigi Valdimarssyni, Sveini Jóhannssyni og félögum í Minden í þýsku B-deildinni í handbolta í kvöld, 37-34.

Það voru gestirnir í Minden sem byrjuðu betur og náðu fjögurra marka forystu um miðjan fyrri hálfleikinn í stöðunni 6-10. Heimamenn svöruðu þó fljótt og snéru taflinu sér í vil og fóru með eins marks forskot inn í hálfleikinn, staðan 20-19.

Heimamenn í Eintracht Hagen létu forystu sína aldrei af hendi í síðari hálfleik og náðu mest fimm marka forystu í stöðunni 36-31. Sigur þeirra var aldrei í hættu eftir það og liðið fagnaði að lokum þriggja marka sigri, 37-34.

Hákon Daði Styrmisson var markahæsti maður Hagen með fimm mörk, ásamt Alexander Weck sem einnig skoraði fimm. Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði fjögur fyrir Minden og Sveinn Jóhannsson þrjú.

Hagen er nú með 12 stig eftir 12 leiki í níunda sæti þýsku B-deildarinnar, en Minden situr í 14. sæti með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×