Formúla 1

Formúlubrautin í Las Vegas ó­nýt og allt í tómu tjóni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér eru menn að reyna að laga formúlubrautina í Las Vegas í nótt.
Hér eru menn að reyna að laga formúlubrautina í Las Vegas í nótt. Getty/Jakub Porzycki

Fyrsta formúlukeppnin í Las Vegas í meira en fjóra áratugi byrjar ekki vel en það varð að hætta við æfingu í nótt.

Keppnin fer fram í miðborg Las Vegas og meðal annars á hinni frægu Strip-götu fyrir framan öll stóru heimsfrægu spilavítin. Gerð brautarinnar kostaði sitt sem og það að koma með Formúlu 1 keppnina til Las Vegas.

Nýja formúlubrautin í Las Vegas virðist þó vera í tómu tjóni og stór galli á henni varð til þess að ekki var hægt að klára æfingu ökumanna í nótt.

Á fyrstu æfingunni þá skemmdist bíll Carlos Sainz þegar undirlag bílsins skaddaðist á einu af holræsalokunum á brautinni.

Rauða flaggið fór á loft og svo var æfingunni aflýst. Í ljós kom að mörg holræsalokin á brautinni voru í ólagi og auðvitað er mikil slysahætta af slíku.

Aðstoðarmenn Sainz fóru á fullt við að laga skemmdirnar á bíl hans en þetta mun örugglega kosta sitt.

Forráðamenn kappakstursins verða nú að reyna að laga brautina fyrir framhaldið en keppnin í Las Vegas á að vera mikil sýning. Sjálfur kappaksturinn á að fara fram á laugardagskvöldi að staðartíma sem er klukkan sex á sunnudagsmorgun á íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×