Innlent

Talinn hafa logið fíkni­efna­fram­leiðslu í Borgar­nesi upp á sjálfan sig

Jón Þór Stefánsson skrifar
Tveir af þremur sakborningum amfetamínsmálsins í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2019. Vitni í málinu á að hafa afvegaleitt það fyrir dómi.
Tveir af þremur sakborningum amfetamínsmálsins í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2019. Vitni í málinu á að hafa afvegaleitt það fyrir dómi. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á fimmtugsaldri sem bar vitni í umfangsmiklu fíkniefnamáli árið 2019, sem varðaði meðal annars framleiðslu á amfetamíni, og tók á sig alla sök, hefur verið ákærður fyrir að bera ljúgvitni.

Honum er gefið að sök að hafa farið með rangan framburð fyrir rétti með því að halda því ranglega fram að hann hafi sjálfur í félagi við annan óþekktan aðila staðið að framleiðslu á tæplega níu kílóum af amfetamíni í Sumarhúsi í Borgarnesi.

Héraðssaksóknari telur brotin varða 142. grein almennra hegningarlaga, sem varða það að ljúga fyrir rétti.

Samkvæmt lagagreininni skal sá sem gerist brotlegur við hana sæta allt að fjögurra ára fangelsi.

Málið varðar fíkniefnaframleiðslu í Borgarfirði árið 2019. Það hefur þó verið dæmt í því máli.Vísir/Vilhelm

Neituðu og fengu þunga dóma

Þrír karlmenn voru sakfelldir í fíkniefnamálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2019. Einn hlaut sjö ára fangelsisdóm og hinir tveir fengu sex ára dóm. Dómar þeirra voru mildaðir í Landsrétti árið 2020. Þar hlaut einn þeirra sex ára dóm en hinir tveir fimm.

Þremenningarnir neituðu allir sök og gagnrýndu rannsókn lögreglu á málinu.

Þeir játuðu þó allir að hafa verið á vettvangi þegar lögreglan stöðvaði amfetamínframleiðsluna.

Eftir að ákæra í málinu var gefin út steig maðurinn, sem nú er ákærður fyrir að bera ljúgvitni, fram og hélt því fram að hann hafi átt fíkniefnin og sjálfur framleitt þau úr amfetamínbasa.

Í fréttaflutningi Vísis um málið kemur fram að framburður mannsins hafi tekið nokkrum breytingum fyrir dómi.

Gat ekki lýst framleiðslunni

Einnig kemur fram í dómnum að hann hafi ekki getað lýst framleiðsluferli amfetamíns nákvæmlega. Hann gat til að mynda ekki minnst á gögn sem voru á vettvangi og eru mikilvæg í framleiðslunni af fyrra bragði.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að framburður mannsins hafi verið ótrúverðugur og til þess fallinn að afvegaleiða við úrlausn málsins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×