Körfubolti

Helena í lands­liðs­hópnum og bætir því lands­leikja­metið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir í leik með íslenska landsliðinu fyrir nokkrum árum.
Helena Sverrisdóttir í leik með íslenska landsliðinu fyrir nokkrum árum. Vísir/Bára

Helena Sverrisdóttir snýr aftur í íslenska körfuboltalandsliðið eftir fjarveru vegna meiðsla. Hún mun því setja nýtt leikjamet þegar Ísland mætir Rúmeníu á útivelli í undankeppni EM.

Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari kvenna, tilkynnti í dag þrettán manna hóp fyrir leiki Íslands á móti Rúmeníu og Tyrklandi.

Nýliðarnir Ísold Sævarsdóttir úr Stjörnunni, og Jana Falsdóttir úr Njarðvík, munu spila sitthvorn leikinn, Ísold þann fyrri ytra og Jana seinni leikinn hér heima.

Tveir leikmenn sem valdir voru núna gátu ekki tekið þátt að þessu sinni.

Sara Rún Hinriksdóttir sem leikur með AE Sedis Bàsquet á Spáni er frá vegna meiðsla og Hildur Björg Kjartansdóttir gat ekki gefið kost á sér að þessu sinni.

Helena Sverrisdóttir snýr aftur í landsliðið en hún hefur einnig verið frá vegna meiðsla. Hún er landsleikjahæsti leikmaður liðsins og mun verða leikjahæsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi eftir leikinn gegn Rúmeníu.

Helena hefur leikið 79 landsleiki eins og Hildur Sigurðardóttir en verður núna sú fyrsta til að spila áttatíu landsleiki.

Útileikurinn gegn Rúmeníu verður 9. nóvember en heimaleikurinn fer fram 12. nóvember í Ólafssal í Hafnarfirði kl. 18:30. Aðgangur verður ókeypis í boði Lykils, en Lykill hefur verið öflugur samstarfsaðili KKÍ í meira en tíu ár.

Berglind Gunnarsdóttir, fyrrum leikmaður íslenska landsliðsins og margfaldur Íslandsmeistari með Snæfelli, er læknir íslenska liðsins í þessu verkefni.

  • Landsliðshópurinn:
  • Anna Ingunn Svansdóttir · Keflavík · 8 landsleikir
  • Ásta Júlía Grímsdóttir · Valur · 12
  • Birna Valgerður Benónýsdóttir · Keflavík · 9
  • Dagbjört Dögg Karlsdóttir · Valur · 18
  • Emelía Ósk Gunnarsdóttir · Keflavík · 13
  • Helena Sverrisdóttir · Haukar · 79
  • Isabella Ósk Sigurðardóttir · Panserraikos Serres, Grikklandi · 12
  • Ísold Sævarsdóttir · Stjarnan · Nýliði
  • Jana Falsdóttir · Njarðvík · Nýliði
  • Sara Líf Boama · Valur · 2
  • Thelma Dís Ágústsdóttir · Keflavík · 18
  • Tinna Guðrún Alexandersdóttir · Haukar · 4
  • Þóra Kristín Jónsdóttir · Haukar · 31
  • Þjálfari: Benedikt Rúnar Guðmundsson
  • Aðstoðarþjálfarar: Halldór Karl Þórsson og Ólafur Jónas Sigurðsson
  • Sjúkraþjálfari: Sædís Magnúsdóttir
  • Læknir: Berglind LáruGunnarsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×