Skoðun

Vinstri beygju bjargað fyrir horn

Marta Guðjónsdóttir skrifar

Í grein á Vísi á laugardag um fyrirhugaðar umferðarþrengingar við gatnamót Hringbrautar, Eiðsgranda og Ánanausta, hélt ég því fram að einni hugmynd þar að lútandi væri ætlað að útiloka vinstri beygju frá nyrsta hluta Hringbrautar, vestur Eiðsgrandann.

Sú fullyrðing rataði í frétt Stöðvar 2 á laugardagskvöld. Á sunnudag birtist frétt á Vísi þar sem því er haldið fram að þetta sé misskilningur. Bann við vinstri beygju ætti við um útkeyrslu frá porti hins svo kallaða JL húss, ekki um gatnamót Eiðsgranda, Hringbrautar og Ánanausta.

Skilningur minn á hugmyndinni byggði hins vegar á þeirri einföldu staðreynd að Hringbraut 121, stendur við fyrrnefnd gatnamót og í greinargerð með tillögunni stendur orðrétt: Tillagan gerir ráð fyrir að ekki verði unnt að taka vinstri beygju frá Hringbraut 121 vestur Eiðsgranda.“Lái mér hver sem vill þennan skilning. Ég fagna því þó heilshugar að vinstri beygju sé þannig bjargað fyrir horn. En skilningur minn var þó engu að síður byggður á afar tvíræðri og óljósri framsetningu tillögunnar.

Fjölgun íbúa - aukinn umferðarþungi

Kjarni málsins um fyrirhugaðar umferðarþrengingar við gatnamót Eiðsgranda, Hringbrautar og Ánanausta, er hins vegar eftirfarandi: Íbúum vestast í Vesturbænum hefur farið ört fjölgandi á undanförnum árum. Nú er í uppbyggingu, eða í þann mund að hefjast uppbygging á fjölda íbúða á Héðinsreitnum, Byko-reitnum, á Landhelgisgæslu-reitnum, KR-reitnum og í Vesturbugtinni við Mýrargötu. Hér er um að ræða íbúafjölgun sem nemur 2500 - 3000 íbúum. Til samanburðar eru íbúar Úlfarsársdals nú um 3000 talsins.

Þessi fjölgun mun hafa í för með sér umferðaraukningu sem nemur fleiri þúsundum ökutækja á sólarhring. Þá ber að hafa í huga að fyrrnefnd gatnamót eru endapunktur megin umferðaræðar borgarinnar, frá Vesturlandsvegi og vestur í Ánanaust. Auk þess er Eiðsgrandinn önnur helsta umferðaræð til og frá Seltjarnarnesi. Umferðarþrengin á þessum slóðum hefur því óhjákvæmilega í för með sér umferðaraukningu um Hofsvallagötu og Nesveg, til og frá Seltjarnarnesi.

Þessar staðreyndir hafa beinlínis hrópað á raunhæfar umferðarlausnir á þessum gatnamótum sem tryggja hvoru tveggja, umferðarflæði á svæðinu og umferðaröryggi þeirra sem þarna hjóla eða ganga. Öruggast væri að sjálfsögðu að halda þarna umferð hjólandi og gangandi vegfarenda í öðru plani, með hjóla- og göngubrú eða undirgöngum.

Umferðaröryggi verður aldrei bætt með umferðaröngþveiti

En í stað þess að huga að raunhæfum samgöngubótum hafa borgaryfirvöld nú þegar þrengt mjög að gatnamótunum með afar þéttri nýtingu á BYKO reitnum.

Síðan eru uppi hugmyndir um að bæta gráu ofan á svart með því sem ætíð hafa verið ær og kýr þessa borgarstjórnarmeirihluta: að fækka akreinum. Til vitnis um það er bókun meirihlutans við málið frá 8. mars sl., þar sem segir meðal annars: „Æskileg[t] væri að fækka akreinum með fram ströndinni og breyta hringtorginu í klassísk ljósastýrð T-gatnamót.“

Hugmyndir um T-gatnamót þar sem hringtorgið er nú, fækkun akreina og fjölgun ljósastýrðra gönguljósa á þessu svæði mun skapa þar umferðaröngþveiti á álagstímum, án þess að bæta öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Umferðaröryggi þeirra verður aldrei bætt með umferðaröngþveiti.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×