Viðskipti innlent

Sam­herji borgar ekki laun starfs­fólks í kvenna­verk­falli

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Vísir/Vilhelm

Norð­lenska fisk­vinnslu­fyrir­tækið Sam­herji hyggst ekki greiða konum og kvárum sem vinna hjá fyrir­tækinu laun mæti þau ekki til vinnu næsta þriðju­dag, þegar boðað hefur verið til kvenna­verk­falls. Starfsfólki er þó frjálst að skreppa á 45 mínútna mótmælafund á Akureyri.

Heimildin greindi fyrst frá en Karl Eskil Páls­son, upp­lýsinga­full­trúi Sam­herja, stað­festir þetta í sam­tali við Vísi. Hann segir að Sam­herji hafi skuld­bindingum að gegna sem mat­væla­fyrir­tæki. Miklu máli skipti að af­henda vörur á réttum tíma og því geti fyrir­tækið því miður ekki komið til móts við starfs­fólk.

Áður hefur komið fram að skipu­leggj­endur verk­fallsins hafi í hyggju að birta tossa­lista yfir at­vinnu­rek­endur sem hamli þátt­töku kvenna og kvára í kvenna­verk­fallinu. Þá hafa fyrir­tæki líkt og Sam­kaup og Coca Cola á Ís­landi sent frá sér yfir­lýsingu til fjöl­miðla þar sem fyrir­tækin lýsa því yfir að þau muni ekki skerða laun starfs­fólks síns í verk­falli.

Verði að standa við skuld­bindingar

Karl Eskil segir að stórir á­hrifa­þættir hafi orðið til þess að for­svars­menn Sam­herja hafi orðið að taka þessa á­kvörðun. Fyrir­tækið hefur meðal annars sent starfs­fólki dreifi­bréf vegna verk­fallsins.

Heimildin birtir dreifi­bréfið en þar eru konur fyrir­tækisins sem vilja leggja niður störf hvattar til að láta yfir­mann sinn vita. Ekki verði greidd laun vegna fjar­veru þennan dag. Karl segir tvær breytur ráða mestu um á­kvörðun fyrir­tækisins.

„Þetta er harður markaður, því miður. Við höfum gert samninga langt fram í tímann um að af­henda vörur á til­teknum tíma og við verðum að standa við þær skuld­bindingar. Það er ein breytan, síðan er það vinnslan. Ef hún stöðvast í einn dag þá hefur það á­hrif til dæmis á togara­flotann og stýringuna á honum.“

Geti mætt á útifund á launum

Í dreifi­bréfi Sam­herja til starfs­manna kemur auk þess fram að hafi konur á­huga á að fara á skipu­lagða dag­skrá þennan dag, séu þær beðnar um að gera það í sam­ráði við sinn yfir­mann. Sá tími verði ekki dreginn af launum.

„Það er úti­fundur á Akur­eyri á milli 11 til 11:45 ef ég man þetta rétt. Þeir starfs­menn sem vilja mæta þangað geta gert það og það verður ekki dregið af launum,“ segir Karl. Hann segist ekki hafa það á hreinu hve hátt hlut­fall kvenna og kvára vinni hjá Sam­herja.

„En það er hátt hlut­fall í land­vinnslunni. Ef vinnsla stöðvast í einn dag myndi það hafa mikil á­hrif á togara­flotann og flutninga, bara svo ég nefni dæmi. Við erum með okkar samninga við flutninga­fyrir­tæki til dæmis, og löngu búið að panta pláss um borð í flutnga­skipum eða í frakt­vélum.“


Tengdar fréttir

Skerða þjónustu heilsu­gæslunnar vegna kvenna­­verk­­falls

Reikna má með að starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins verði verulega skert þriðjudaginn 24. október næstkomandi vegna boðaðs kvennaverkfalls. Heilsugæslustöðvar verða opnar en munu eingöngu sinna bráðaerindum þennan dag.

Mikil­vægt að laun verði ekki dregin af fólki vegna kvenna­verk­falls

Mikilvægt er að atvinnurekendur gefi skýr skilaboð um að laun verði ekki dregin af þeim sem hyggjast leggja niður störf þann 24. október næstkomandi. Forsvarskonur kvennaverkfalls hvetja sem flesta til að virkja fólk í kringum sig til þátttöku, sérstaklega fólk af erlendum uppruna.

Kallarðu þetta jafnrétti?

Fyrir 48 árum boðuðu konur hér á landi í fyrsta sinn til Kvennafrís þar sem 90% kvenna lögðu niður ólaunuð sem launuð störf til að sýna fram á mikilvægi framlags þeirra til samfélagsins. Alls hafa konur lagt niður vinnu í sex skipti til að mótmæla kynbundnu misrétti.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×