Innlent

Allt mat­væla­eftir­lit fari til ríkisins

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ráðherra ásamt fulltrúum og starfsfólki starfshóps um um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælaeftirliti.
Ráðherra ásamt fulltrúum og starfsfólki starfshóps um um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælaeftirliti. Stjórnarráðið

Ein­róma niður­staða starfs­hóps um fyrir­komu­lag eftir­lits með hollustu­háttum, mengunar­vörnum og mat­væla­eftir­liti, er sú að þörf sé á því að færa allt eftir­lit til stofnana ríkisins. Hópurinn leggur til að níu eftir­lits­stofnanir, svo­kallaðar heil­brigðis­nefndir, á vegum sveitar­fé­laga verði lagðar niður.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu starfs­hópsins sem kynnt var í dag. Guð­laugur Þór Þórðar­son, um­hverfis-, orku- og loft­lags­ráð­herra skipaði starfs­hópinn í októ­ber í fyrra í sam­ráði við Svan­dísi Svavars­dóttur, mat­væla­ráð­herra.

Hópurinn var skipaður þeim Ár­manni Kr. Ólafs­syni for­manni, Gunnari Alexander Ólafs­syni, sér­fræðingi og Sig­ríði Gísla­dóttir dýra­lækni og komust þau eftir rýni á skýrslum og við­tölum við full­trúa stofnana og at­vinnu­lífs að þeirri niður­stöðu að þörf sé á gagn­gerum breytingum á fyrir­komu­lagi eftir­lits.

Eftir­litið í dag í höndum ellefu stofnana

Yfir­stjórn mála­flokkana er í dag hjá um­hverfis-,orku- og loft­lags­ráðu­neytinu auk mat­væla­ráðu­neytisins. Þá er megin­á­byrgð á fram­kvæmd og sam­ræmingu eftir­lits hjá Um­hverfis­stofnun og Mat­væla­stofnun en dag­leg fram­kvæmd eftir­litsins að veru­legum hluta í höndum heil­brigðis­eftir­lits sveitar­fé­laga.

Segir starfs­hópurinn að því sé um að ræða flókið sam­spil alls ellefu stofnana. Þær séu á tveimur stjórn­sýslu­stigum ríkis og sveitar­fé­laga þar sem meðal annars reyni á inn­leiðingu og fram­kvæmd um­fangs­mikillar EES-lög­gjafar.

Hópurinn segir að þær úr­bætur sem áður hafi verið gerðar á fyrir­komu­lagi eftir­litsins hafi ein­kennst af búta­saumi. Löngu sé orðið tíma­bært að ráðist verði í heild­stæða endur­skoðun á nú­verandi kerfi.

Drógu upp þrjár sviðs­myndir

Ýmsir gallar séu á fyrir­komu­lagi og fram­kvæmd eftir­lits eins og það er skipu­lagt í dag. Ó­sam­ræmi í fram­kvæmd sé of mikið, stjórn­sýsla of flókin, það skorti yfir­sýn og mis­brestir kerfisins hafi nei­kvæð á­hrif á at­vinnu­líf og sam­keppnis­hæfni Ís­lands. Þá séu van­nýtt tæki­færi til skil­virkni, ein­földunar og starfrænnar þróunar.

Hópurinn dró upp þrjár sviðs­myndir við vinnu sína sem fela í sér mis­miklar breytingar. Í fyrsta lagi að heil­brigðis­eftir­lits­svæðum verði fækkað, í öðru lagi að mat­væla­eftir­lit verði hjá einni stofnun, á­samt fækkun heil­brigðis­eftir­lita og í þriðja lagi að allt eftir­lit verði hjá stofnunum ríkisins.

„Var það ein­róma niður­staða starfs­hópsins að leggja til að færa allt eftir­lit til stofnana ríkisins (sviðs­mynd 3). Sú til­laga felur í sér til­færslu verk­efna milli stjórn­sýslu­stiga, um­fangs­miklar breytingar á lögum og stjórn­valds­fyrir­mælum og veru­lega ein­földun kerfisins, auk þess að hafa í för með sér betri þjónustu og minni kostnað. Telur hópurinn að með henni séu mestar líkur á að tryggja megi nauð­syn­lega sam­ræmingu.“

Ráð­herra á­nægður með skýrsluna

Haft er eftir Guð­laugi Þór í til­kynningu frá um­hverfis­ráðu­neytinu að hann sé á­nægður með skýrsluna. Hann sé auk þess á­nægður með þær til­lögur um úr­bætur sem starfs­hópurinn leggur til að ráðist verði í.

„Vanda­mál eftir­litsins liggur í flóknu kerfi þar sem á­byrgðin liggur ýmist hjá sveitar­fé­lögum eða ríkinu. Hér er lagt til að straum­línu­laga kerfið, fækka stofnunum um níu og láta á­byrgðina á mál­flokknum liggja hjá ríkinu. Það er því góður sam­hljómur milli þessara til­lagna og þeirra skýrslna sem áður hafa verið gefnar út um mál­efni heil­brigðis­eftir­lita. Einnig er mikil­vægt að hópurinn átti í góðu sam­ráði og sam­tali við alla hag­aðila í vinnunni,“ segir Guð­laugur Þór.

Ármann Kr. Ólafsson formaður starfshópsins kynnir tillögur hópsins.Stjórnarráðið

Ljóst sé að hér sé um að ræða mál­efni sveitar­fé­laganna að stórum hluta. Því hafi hann farið yfir helstu niður­stöður á haust­fundum lands­hluta­sam­takanna undan­farnar vikur, því ekkert verði gert án þeirra að­komu.

„Það er hins vegar ljóst að við getum ekki skrifað alltaf nýjar skýrslur með sömu niður­stöðunni. Við verðum að leggjast yfir málin, taka sam­talið og gera nauð­syn­legar og tíma­bærar breytingar á fyrir­komu­lagi eftir­litsins,“ segir Guð­laugur Þór Þórðar­son, um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráð­herra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×