Umfjöllun: Fær­eyjar - Ís­land 23-28 | Ísland kom til baka í seinni hálfleik

Árni Gísli Magnússon skrifar
Frá leik Ísland - Lúxemborg í undankeppni EM kvenna á dögunum. Leik sem Ísland vann nokkuð örugglega.
Frá leik Ísland - Lúxemborg í undankeppni EM kvenna á dögunum. Leik sem Ísland vann nokkuð örugglega.

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta vann mikilvægan fimm marka sigur gegn Færeyjum ytra. Lokatölur 28-23 en Færeyingar leiddu með einu marki í hálfleik.

Þetta var annar leikur liðsins í undankeppni EM en Ísland vann stórsigur gegn Lúxemborg heima á miðvikudaginn var. Ísland er því á toppi riðilsins ásamt Svíum sem verða næstu andstæðingar Íslands í riðlinum. Í millitíðinni fara stelpurnar á HM sem hefst þann 30 nóvember.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði fyrstu tvö skot heimakvenna í leiknum en Ísland náði heldur ekki að skora í sínum tveimur fyrstu skotum, Thea Imani skaut yfir í bæði skiptin.

Fyrsta mark leiksins kom á fjórðu mínútu og var það Elsa Egholm í liði Færeyja sem skoraði það. Íslenska liðið hrökk þá í gang og komst í 4-1 og 5-2.

Í stöðunni 7-3 fyrir Íslandi fór allt í baklás í sóknarleik liðsins ásamt því að Annika Petersen í marki Færeyja varði nokkra bolta og heimakonur skoruðu næstu 5 mörk leiksins og komust í fyrsta skipti yfir í stöðunni 8-7 eftir 19 mínútur.

Elín Jóna varði frábærlega framan af hálfleiknum og endaði með 7 bolta varða í fyrri hálfleik. Varnarleikurinn virtist ekki vera nægilega vel samstilltur eftir því sem á leið og tókst heimakonum að skora síðasta mark hálfleiksins og leiddu því með einu marki í hálfleik, 12-11.

Íslensku stelpurnar sýndi betri frammistöðu í síðari hálfleik og voru komnar aftur í forystu eftir fjórar mínútur, 14-13.

Sóknarleikurinn var vel upp settur með Theu Imani og Söndru Erlingsdóttur í fararbroddi og voru þær einnig að finna Hildigunni Einarsdóttur vel á línunni.

Varnarleikurinn hefur verið betri en Elín Jóna átti algjöran stórleik í markinu og varði hvert dauðafærið á fætur öðru.

Ísland náði fjögurra marka forystu, 20-16, þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir og héldu forystunni áfram í þremur til fjórum mörkum. Munurinn var þrjú mörk þegar innan við mínúta lifði leiks en með marki frá Hildigunni, markvörslu frá Elínu og marki frá Söndru í blálokin tryggði íslenska liðið sér fimm marka sigur sem getur skipt máli ef það færi svo að markatala hefði áhrif á lokastöðu liðsins í riðlinum sem og í innbyrðisviðureignum liðanna. Lokatölur 26-23 Íslandi í vil.

Af hverju vann Ísland?

Íslenska liðið spilaði fínan handbolta á köflum í síðari hálfleik og er betra lið heldur en það Færeyska sem sýndi þó í dag að það getur vel spilað handbolta. Það munaði um minna að hafa Elínu í markinu sem varði fjölmörg dauðafæri ofan á allt annað.

Hverjar stóðu upp úr?

Elín Jóna Þorsteinsdóttir var klárlega besti leikmaður vallarins í dag en hún varði 14 bolta sem gerir 38,9% markvörslu. Sandra Erlingsdóttir og Thea Imani Sturludóttir stýrðu sóknarleiknum með sex mörk hvor og Hildigunnur var með fimm mörk á línunni. Hjá Færeyjum var Elsa Egholm aðgangshörð með fimm mörk úr sex skotum og 6 lögleg stopp. Jana Mittún skoraði sex mörk úr ellefu skotum. Brynja Höj stóð vörnina vel með 8 lögleg stopp.

Hvað gekk illa?

Vörn íslenska liðsins hefur gengið betur og erfitt að treysta á að markmaður liðsins eigi alltaf stórleik fyrir aftan. Hjá Færeyjum var það helst færanýting og þá aðallega úr dauðafærum sem þarf að laga.

Hvað gerist næst?

Ísland tekur þátt á HM sem fram fer í Danmörku, Noregi og Svíþjóð frá 30. nóvember til 17. desember.Næstu leikir liðsins í undankeppni EM eru gegn Svíum þann 28. febrúar á Íslandi og 2. mars úti í Svíþjóð. Sömu daga spila Færeyjar gegn Lúxemborg heima og úti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira