Innlent

Skjálfta­virkni sem svipar til að­draganda eld­goss

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Frá eldgosinu við Litla Hrút í sumar. Talið er líklegt að eldgos verði árleg eða jafnvel tíðari á Reykjanesskaga.
Frá eldgosinu við Litla Hrút í sumar. Talið er líklegt að eldgos verði árleg eða jafnvel tíðari á Reykjanesskaga. Vísir/Vilhelm

Mikil skjálftavirkni hefur verið vítt og breitt um Reykjanesskaga síðustu vikur. Virknin svipar til aðdraganda eldgosa á svæðinu undanfarin ár. 

Tveir jarðskjálftar yfir þrír að stærð urðu með skömmu millibili í gærkvöldi. Annar var við Sandfellshæð, en hinn um þrjátíu kílómetra austar, við Kleifarvatn.

Í færslu á Facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands segir að mynstrið í skjálftavirkninni svipi mjög til þess sem hún hafi verið í aðdraganda eldgosa undanfarinna ára. 

„Staðbundnar hrinur endast fremur stutt og þær hoppar sífellt á milli staða á skaganum. Á síðustu fjórum dögum hafa hrinur verið í gangi á sex mismunandi stöðum á skaganum sjálfum, auk þess að skjálftar hafa verið að eiga sér stað skammt undan landi við Reykjanestá,“ segir í færslunni. 

Jafnframt er sagt frá því að landris undir Fagradalsfjalli hafi verið stöðugt frá því gosinu við Litla Hrút lauk í ágúst.

 „GPS mælir við Festarfjalla, sunnan Fagradalsfjalls, hefur risið um rúmlega 2 cm frá goslokum. Í raun hefur landris verið í gangi meir og minna í nokkur ár, en það virðist einungist staðna rétt á meðan eldgos standa yfir.“

Í byrjun september var greint frá því að sérfræðingar Veðurstofunnar hefðu séð merki um landris um leið og eldgosinu við Litla Hrút lauk. Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum hjá Veðurstofu Íslands, sagði þá að það styttist í gos en teldi þó að einhverjir mánuðir myndu líða áður en það hæfist. Um það væri þó ömulegt að fullyrða. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×