Skoðun

Há­skólar 21. aldarinnar

Davíð Þorláksson og Katrín Atladóttir skrifa

Bandaríski hagfræðingurinn Steven Levitt sagði að hvati væri byssukúla eða lykill; oft lítill hlutur sem gæti haft gríðarlega mikil áhrif til breytinga. Það skiptir máli að öll kerfi séu stillt af með réttum hvötum því það hefur mikil áhrif á það hver útkoman úr þeim verður.

Ljóst er að núverandi fjármögnunarlíkan íslensku háskólanna, sem var tekið upp á síðustu öld, er barn síns tíma. Það er því mikið fagnaðarefni að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hafi nú kynnt gagngera kerfisbreytingu á fjármögnun háskólanna sem er forsenda þess að íslenskir háskólar geti náð enn betri árangri.

Breytingarnar færa okkur nær því sem tíðkast á Norðurlöndunum og hefur skilað góðum árangri þar. Í stað þess t.d. að 65% fjármagnsins byggi á þreyttum einingum verður kennsla ráðandi þáttur með 60% sem skiptist á milli lokinna eininga (42%) og útskriftir (18%). Það skapar augljósan hvata fyrir skóla að tryggja góðan árangur í námi í stað þess að hvatinn snúist fyrst og fremst um að hafa sem allra flesta nema skráða í nám.

Aukin og bætt menntun, m.a. í háskólum, er eitt besta tól hins opinbera til að viðhalda góðum lífskjörum og bæta þau til langs tíma. Menntakerfið getur veitt öllum jöfn tækifæri, óháð efnahag. Því er mikilvægt að háskólar séu vel fjármagnaðir og í stakk búnir að veita góða menntun sem stenst alþjóðlegan samanburð. Nýtt fjármögnunarlíkan er mikilvægt skref í þá átt.

Höfundar sitja í háskólaráði Háskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×