Handbolti

Elvar Örn magnaður í sigri á meisturunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elvar Örn Jónsson með landsliðinu
Elvar Örn Jónsson með landsliðinu VÍSIR/VILHELM

Elvar Örn Jónsson var markahæstur í liði Melsungen sem vann frábæran útisigur á meisturum Kiel í þýska handboltanum í dag. Þá var Ómar Ingi Magnússon markahæstur hjá Magdeburg sem vann sigur í sínum leik.

Melsungen hefur farið frábærlega af stað í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og var fyrir leikinn gegn Kiel búið að vinna sigur í öllum þremur leikjum sínum á tímabilinu. Kiel tapaði í síðasta leik gegn Flensburg en liðið er ríkjandi meistari.

Og Melsungen ætlar sér greinilega ekkert að hætta fyrst þeir eru byrjaðir á annað borð. Liðið vann frábæran fimm marka sigur á Kiel á útivelli í dag. Lokatölur 35-30.

Elvar Örn Jónsson var frábær í liði Melsungen. Hann skoraði níu mörk og var markahæstur í sínu liði. Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú mörk af línunni og nýtti öll sín skot.

Leipzig undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar vann góðan 36-30 sigur á Wetzlar á heimavelli. Viggó Kristjánsson og Andri Már Rúnarsson skoruðu sitt markið hvor fyrir Leipzig sem vann þar með sinn annan leik á tímabilinu.

Ómar Ingi Magnússon skoraði átta mörk fyrir Magdeburg sem vann öruggan sigur á Hamburg á heimavelli. Sjö marka Ómars komu af vítalínunni og vonandi liggur leiðin áfram upp á við hjá Ómari sem er að koma til baka eftir erfið meiðsli. Lokatölur í Magdeburg 35-24.

Ýmir Már Gíslason og Arnór Snær Óskarsson voru báðir í leikmannahópi Rhein-Neckar Löwen sem tapaði 34-29 á útivelli gegn Hannover-Burgdorf. Ýmir Örn skoraði tvö mörk fyrir Ljónin en Arnór Snær komst ekki á blað. Heiðmar Felixson er þjálfari Hannover-Burgdorf sem er í öðru sæti deildarinnar eftir sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×