Innlent

Sveitar­fé­lögum ekki heimilt að synja fólkinu um þjónustu

Árni Sæberg skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra pantaði álitið.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra pantaði álitið. Stöð 2/Ívar Fannar

Dvalarsveitarfélagi er ekki rétt að synja einstaklingi um fjárhagsaðstoð af þeirri einu ástæðu að réttindi hans sem umsækjanda um alþjóðlega vernd hafi fallið niður. Þetta segir í álitsgerð Lagastofnunar Háskóla Íslands, sem forsætisráðuneytið óskaði eftir á dögunum.

Forsætisráðuneytið óskaði eftir að Lagastofnun tæki saman álitsgerð þar sem tekin yrði afstaða til þess hvort ákvæði útlendingalaga komi í veg fyrir að umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa fengið endanlega synjun um vernd, geti notið réttar til fjárhagsaðstoðar frá dvalarsveitarfélagi á kostnað ríkissjóðs samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Tilefnið var ágreiningur milli félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins annars vegar og dómsmálaráðuneytis og sveitarfélaganna hins vegar um það hvort sveitarfélögum væri skylt að veita flóttafólki, sem þjónusta hefur verið felld niður gagnvart, fjárhagsaðstoð.

Sveitarfélögin þurfi að taka afstöðu

Í niðurstöðu Lagastofnunar segir að í stað þess að synja fólkinu um þjónustu af þeirri einu ástæðu að réttindi hans sem umsækjanda um alþjóðlega vernd hafi fallið niður á grundvelli skerðingarreglu nýrra útlendingalaga, beri dvalarsveitarfélagi, að höfðu samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld ríkisins, að taka afstöðu til þess hvort og að hvaða marki hlutaðeigandi eigi rétt til fjárhagsaðstoðar frá því á kostnað ríkissjóðs.

Þá segir að það falli utan marka álitsgerðarinnar að leysa úr því hvort og að hvaða marki slíkur réttur kann að vera til staðar í einstökum tilfellum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×