Formúla 1

Tók sex mánuði að búa til bikarinn sem brotnaði á F1 pallinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Max Verstappen með bikarinn sem brotnaði. Hann fær nýjan í staðinn.
Max Verstappen með bikarinn sem brotnaði. Hann fær nýjan í staðinn. Getty/Jure Makovec

Bikarinn sem brotnaði á verðlaunapalli formúlu eitt í Ungverjalandi um helgina var enginn venjulegur bikar.

Bikarinn brotnaði illa eftir að Lando Norris, sá sem endaði í öðru sæti, barði kampavínsflösku sinni í verðlaunapallinn til að fá meira gos úr flöskunni. Þá vildi svo illa til að bikar sigurvegarans, Max Verstappen, féll í jörðina og brotnaði.

Bikarinn er einstakur handmálaður bikar sem tekur mjög langan tíma að búa til.

Samkvæmt upplýsingum frá Ungverjanum Sándor Mészáros, sem fjallar um Formúlu eitt í heimalandi sínu, þá kostaði bikarinn fjörutíu þúsund evrur eða rúmlega 5,8 milljónir íslenskra króna.

Þar kom líka fram að það taki um sex mánuði að fullgera bikarinn.

Ungverska fyrirtækið sem gerði bikarinn, Herendi Porcelanmanufaktura Zrt, hefur þegar hafið framleiðslu á nýjum bikar sem Verstappen fær í stað þess sem brotnaði. Það mun aftur á móti taka sinn tíma að útbúa bikarinn fyrir hollenska heimsmeistarann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×