Skoðun

Mann­réttindi eiga að vera í for­gangi

Eyjólfur Ármannsson skrifar

Vandræðagangurinn á matvælaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, virðist ómælanlegur þegar litið er til stjórn hennar á sameiginlegri fiskveiðiauðlind landsmanna.

Frumvörp hennar um stjórn fiskveiða hafa annað hvort miðað að því að færa fleiri nytjategundir inn í gjafakvótakerfið á borð við grásleppuna eða hleypa togskipum með óheftu vélarafli upp í fjöru.

Umrædd þingmál er hvergi að finna í stefnuskrá Vinstri Grænna. Hér virðist sem hún hafi tekið upp mál forvera síns í starfi, Kristjáns Þórs Júlíussonar, og gert að sínum. Í sömu mund virðir hún vettugi skýra stefnu flokks síns um að efla strandveiðar. Ekki hefur hún lagt neitt til um að auka og efla strandveiðar heldur snúast frumvörp hennar um að skipta niður einhverri hungurlús til strandveiðimanna. Hún réð jú fyrrverandi forstjóra Granda í það hlutverk að sverta strandveiðar í löngu máli undir slagorðinu „Auðlindin okkar.“

Ef litið er út frá sjónarhóli markmiða laga um stjórn fiskveiða um að tryggja sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar með byggðafestu og auknum fiskafla, þá er augljóst að kvótakerfið hefur brugðist. Kerfið hefur brotið í bága við réttlætiskennd þjóðarinnar og hlotið áfellisdóm hjá Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna. Íslensk stjórnvöld lofuðu að bregðast við áliti mannréttindanefndarinnar og var fyrsti liðurinn í því að koma á strandveiðikerfinu, en því samhliða var lofað að endurskoða fiskveiðikerfið með það að markmiði að auka jafnræði borgaranna til þess að nýta og njóta sameiginlegra auðlinda í efnahagslögsögunni.

Það er alveg ljóst að strandveiðar falla að öllum yfirlýstu markmiðum laga um stjórn fiskveiða. Strandveiðar tryggja byggðafestu, undirstrika að auðlindin er í eigu íslensku þjóðarinnar og strandveiðiaflinn er jafnan seldur á frjálsum fiskmörkuðum, þar sem allir landsmenn geta keypt. Að lokum þá stuðla handfæraveiðar að verndun og hagkvæmri nýtingu, þar sem ekki er nokkur lifandi leið að ofveiða fiskistofna með handfærum. Þessar staðreyndir virðist vera mjög framandi fyrir ráðherra Vinstri Grænna sem setur hagsmuni aflmikilla togskipa og sjávarútvegsrisanna í algeran forgang.

Mannréttindi eiga ekki að mæta afgangi

Flokkur fólksins krefst þess að matvælaráðherra tryggi strandveiðibátum þegar í stað að minnsta kosti 48 veiðidaga í ár. Setjum mannréttindi og jafnræði í forgang. Þessi sjónarmið mega aldrei mæta afgangi. Ef matvælaráðherra stöðvar veiðarnar á þeim forsendum að einhver hungurlús sem hún skammtaði sjálf er uppurin, þá er það pólitískur yfirdrepsskapur og lýsir pólitísku kjarkleysi.

Höfundur er alþingismaður fyrir Flokk fólksins í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Skoðun

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×