Kvika er nú um kílómetra fyrir neðan yfirborð jarðar, að sögn Þorvaldar Þórðarsonar eldfjallafræðings.
„Landrisið, það hefur hægt á því. Skjálftarnir, það hefur dregið úr þeim. Þetta mynstur er alveg í stíl við það sem gerðist fyrir bæði '21 og '22 gosin,“ segir Þorvaldur.
„Þetta stefnir allt saman í gos.“
Stutt sé í gos miðað við stöðuna eins og hún er nú. Þó sé mögulegt að tíma taki fyrir kvikuna að komast upp síðasta kílómetrann, líkt og hafi verið raunin í eldgosinu 2021.
„Þetta gerðist mun hraðar í '22 gosinu og hugsanlega gæti það gerst enn hraðar núna. Maður veit það ekki.
Ástæða þess sé að kvikan noti sömu aðfærsluæð og áður hefur gosið um, sem þýðir að auðveldara er fyrir kvikuna að brjótast fram til yfirborðs. Hins vegar gætu efstu hlutar gosrása fyrri eldgosa hafa kólnað, þannig að kvika hafi storknað efst í þeim.
Býst við afllitlu gosi
„Þá er bara eins og það sé tappi í þeim. Þá þarf kvikan á þessum síðasta kílómetra að finna þessa opnun sem er til staðar, til að komasta þennan síðasta kílómetra til yfirborðs.“
Þannig að kvikan gæti mallað þarna í einhvern tíma með tilheyrandi skjálftum, á meðan hún leitar að útgönguleið?
„Já, það er langbest að lýsa því þannig. Og hversu lengi hún mallar er náttúrulega stóra spurningin“
Upplýsingar frá því fyrr í vikunni bendi til þess að landris nái yfir stórt svæði, sem segi til um að mikil kvika hafi safnast saman í geymsluhólfum neðanjarðar, yfir langan tíma. Þó sé ómögulegt að segja til um hversu stór hluti þeirrar kviku nái á endanum upp á yfirborð í eldgosi.
„Það er mjög erfitt að spá fyrir um stærðina á væntanlegu gosi. Ég á von á því að þetta verði frekar afllítið gos.“
Fyrr í dag var rætt við náttúruvársérfræðing hjá Veðurstofunni sem sagðist eiga von á mun kröftugra gosi en fyrri gos hefðu verið.