Sport

Toppliðið býður upp á nudd og toppslag í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Gauti Ragnarsson er markahæstur í Lengjudeildinni með átta mörk í fyrstu átta umferðunum og Magnús Már Einarsson þjálfar toppliðið í Mosfellsbænum.
Arnór Gauti Ragnarsson er markahæstur í Lengjudeildinni með átta mörk í fyrstu átta umferðunum og Magnús Már Einarsson þjálfar toppliðið í Mosfellsbænum. Instagram/@aftureldingknattspyrna

Það verður mikið um að vera á Malbikstöðinni að Varmá í kvöld þegar tvö efstu lið Lengjudeildar karla í fótbolta mætast.

Heimamenn í Aftureldingu hafa tveggja stiga forskot á Fjölni á toppi deildarinnar og því er toppsætið falt í þessum leik. Leikurinn hefst klukkan 19.15.

Afturelding hefur unnið sex af átta deildarleikum sumarsins og er með fjórtán mörk í plús í markatölu (23-9).

Bæði liðin eru taplaus því Fjölnismenn eru með fimm sigra og þrjú jafntefli í sínum átta leikjum og markatala þeirra er tíu mörk í plús (18-8).

Efsta liðið fer beint upp í Bestu deildina en liðin í öðru til fimmta sæti fara í umspil um hitt lausa sætið.

Alveg eins og í fyrra er boðið upp á stórskemmtilega viðburði í tengslum við alla heimaleiki Aftureldingar.

Í fyrstu þremur heimaleikjum sumarsins hefur verið fótsnyrting hjá Fótaaðgerðarstofu Mosfellsbæjar, rauðvínssmakk hjá Zenato og í síðasta leik gegn Njarðvík var hægt að fara í klippingu í stúkunni hjá Studio 110.

Á leiknum gegn Fjölni í kvöld verður aftur á móti hægt að fá fimmtán mínútna axlarnudd á þrjú þúsund krónur. Það er smá lúxus í því að horfa á góðan fótboltaleik og fá nudd í leiðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×