Körfubolti

Tveir sigrar gegn Norð­mönnum í dag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Tinna Guðrún átti góðan leik fyrir Ísland í dag.
Tinna Guðrún átti góðan leik fyrir Ísland í dag. Vísir / Hulda Margrét

U-20 ára landslið kvenna og U-18 ára lið karla unnu í dag tvo sigra á Noregi á Norðurlandamótinu sem fram fer í Södertälje í Svíþjóð.

Um var að ræða fyrstu leiki liðanna á mótinu en bæði liðin leika leiki sína í Södertälje sem er úthverfi sænsku höfuðborgarinnar Stokkhólms.

Leikur U-20 ára liðs kvenna gegn Noregi var æsispennandi. Ísland var fjórum stigum yfir í hálfleik 34-30 og leiddi með fimm stigum áður en lokafjórðungurinn hófst.

Agnes María Svansdóttir lék vel í dag.Vísir/Hulda Margrét

Það bitu norsku stúlkurnar frá sér og tókst að jafna metin með þriggja stiga körfu 43 sekúndum fyrir leikslok. Það varð því að framlengja og þar var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Íslenska liðið skoraði tíu stig gegn engu í framlengingunni og unnu að lokum 84-74 sigur.

Agnes María Svansdóttir skoraði 18 stig fyrir Ísland og Tinna Guðrún Alexandersdóttir kom næst með 17 stig. Eva Wium Elíasdóttir skoraði 15 stig og Elísabeth Ýr Ægisdóttir 14. Fyrirliðinn Vilborg Jónsdóttir gaf hvorki fleiri né færri en 16 stoðsendingar í leiknum.

Stelpurnar mæta næst liði Dana á fimmtudag sem steinlágu gegn Finnum í dag.

Öruggt hjá strákunum

U-18 ára lið Íslands í karlaflokki mætti einnig Norðmönnum í dag. Þar var ekki eins mikil spenna því íslensku strákarnir unnu öruggan þrjátíu og þriggja stiga sigur.

Íslenska liðið var komið með sextán stiga forystu í hálfleik og stigu ekki af bensíngjöfinni í síðari hálfleiknum. Lokatölur 93-60 og óhætt að segja að strákarnir byrji vel á mótinu í Svíþjóð.

Kristján Fannar Ingólfsson var stigahæstur hjá Íslandi með 20 stig og Birkir Hrafn Eyþórsson kom næstur með 16 stig. Næsti leikur íslenska liðsins er gegn Eistlandi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×