Átta liða úrslitin hefjast á fimmtudaginn þar sem Ísland spilar við Portúgal en Færeyjar mæta Serbum.
Hefðu Færeyingar eða Íslendingar endað í öðru sæti í sínum milliriðli hefðu þau mæst strax í átta liða úrslitunum.
Þar sem Ísland og Færeyjar unnu bæði sína leiki þá geta þau ekki mæst fyrr en í úrslitaleiknum og það væri nú afar áhugavert að fá úrslitaleik á milli Íslands og Færeyja á stórmóti. Liðin geta auðvitað líka mæst í leiknum um þriðja sætið tapi þau bæði í undanúrslitum.
Það er hins vegar langt þangað til og nú reynir á íslensku strákana á móti Portúgal í átta liða úrslitunum. Tveir síðustu leikir hafa unnist með minnsta mun og því hefur ekki mátt muna miklu að þeir væru að keppa um níunda til sextánda sæti.
Færeyska liðið hefur farið á kostum á þessu móti og unnu leiki sína í milliriðlinum með samtals fjórtán marka mun. Eins og staðan í dag eru þeir því líklegri til að fara alla leið í úrslitaleikinn.
Tveir eins marks sigrar í röð hafa þó sýnt það að íslensku strákarnir kunna að klára hnífjafna leiki og það má búast við að leikirnir verði áfram jafnir í átta liða og undanúrslitum.
Vinni Ísland lið Potúgals í átta liða úrslitunum þá mæta strákarnir annað hvort Ungverjum eða Króötum í undanúrslitaleiknum. Færeyingar mæta annað hvort Þýskalandi eða Danmörku komist þeir í undanúrslitin.