Handbolti

Bauð Ki­elce sigurinn þegar pólski blaða­­maðurinn barðist fyrir lífi sínu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bennet Wiegert, þjálfari Íslendingaliðs Magdeburg, bauð starfsbróður sínum hjá Kielce að hætta leik á meðan pólskur blaðamaður barðist fyrir lífi sínu uppi í stúku.
Bennet Wiegert, þjálfari Íslendingaliðs Magdeburg, bauð starfsbróður sínum hjá Kielce að hætta leik á meðan pólskur blaðamaður barðist fyrir lífi sínu uppi í stúku. Vísir/Getty

Bennet Wiegert, þjálfari Íslendingaliðs Magdeburg, bauð Talant Dujshebaev, þjálfara Kielce, að hætta leik og láta stöðuna sem á þeim tíma var á töflunni standa sem úrslit leiksins í úrslitum Meistaradeildar Evrópu á sunnudagskvöld eftir að pólski blaðamaðurinn Pawel Kotwica missti meðvitund uppi í stúku og barðist fyrir lífi sínu.

Blaðamaðurinn Kotwica sérhæfði sig í málefnum pólska stórliðsins Kielce og var að sjálfsögðu mættur er liðið mætti Magdeburg í stærsta leik ársins, úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var hins vegar gert langt hlé á leiknum vegna bráðaatviks í stúkunni. Kotwica hafði misst meðvitund og barðist fyrir lífi sínu. Honum var veitt fyrsta hjálp og fluttur á næsta sjúkrahús, en var úrskurðaður látinn stuttu síðar.

Á meðan Kotwica barðist fyrir lífi sínu uppi í stúku gekk Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburg, yfir til starfsbróður síns hjá Kielce, Talant Dusjhebaev, og bauð honum að hætta leik, enda væri margt í heiminum sem væri mikilvægara en íþróttir eins og haft er eftir Wiegert hjá þýska miðlinum Bild.

„Ég gekk yfir til Talant og bauð honum að hætta leik,“ sagði Wiegert.

„Stöðvum leikinn núna. Það er margt mikilvægara í þessum heimi en íþróttir. Látum úrslitin standa eins og staðan er núna og þið vinnið Meistaradeildina,“ sagði Wiegert við kollega sinn, en staðan á þeim tíma var 25-22, Kielce í vil.

Dujshebaev tók þó ekki boði Wiegert og Magdeburg vann að lokum dramatískan eins marks sigur eftir framlengingu, 30-29.

„Ég er sammála þér, en þá telur sigur okkar ekki neitt,“ á Dujshebaev að hafa svarað Wiegert. 

„Þá endum við bara með tvö lið sem fóru í úrslit og engan sigurvegara.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×