Handbolti

Guð­jón Valur valinn þjálfari ársins í Þýska­landi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðjón Valur er þjálfari Gummersbach.
Guðjón Valur er þjálfari Gummersbach. Twitter@vfl_gummersbach

Guðjón Valur Sigurðsson var í kvöld valinn þjálfari ársins í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Guðjón Valur hefur gert frábæra hluti með nýliða Gummersbach á tímabilinu.

Guðjón Valur er á sínu þriðja ári sem þjálfari Gummerbach. Þetta er annað árið í röð sem Guðjóni Val hlotnast þessi heiður en hann var valinn þjálfari ársins í næst efstu deild- í fyrra þegar Gummersbach vann sér sæti í efstu deild.

Forsvarsmenn þýsku deildarinnar tilkynntu um valið í kvöld en Gummersbach vann einmitt sigur gegn Göppingen í úrvalsdeildinni í kvöld.

„Þetta var erfiðari ákvörðun heldur en í fyrra en á endanum varð fyrrum heimsklassa hornamaðurinn efstur á blaði,“ segir í yfirlýsingu deildarinnar.

„Guðjón Valur og VFL Gummersbach hafa haldið áfram í Liqui-Moly deildinni þar sem þeir hættu í næst efstu deild með frábærum árangri. Þeir gáfu það út snemma að þeir ætluðu sér að halda sér í deildinni og eru sem stendur á meðal tíu efstu liða deildarinnar í sterkustu deild í heimi.“

Þá er einnig minnst á leikmenn sem hafa þróast undir handleiðslu Guðjón Vals en Elliði Snær Viðarsson og Hákon Daði Styrmisson eru á mála hjá Gummersbach.

„Liðið gerði engin risastór félagaskipti fyrir tímabilið en gerði vel með mörgum ungum leikmönnum, aðlaðandi handbolta og íslenskum karakter - sterkri vörn og milum hraða,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.

Gummersbach er í tíunda sæti þegar ein umferð er eftir af þýsku deildinni en liðið gæti lyft sér ofar með sigri í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×